Mynd: Landnemabyggð Ísrael í Efrat á Vesturbakkanum.
Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur úrskurðað að landnemabyggðir Ísrael á Vesturbakkanum eru ólöglegar, að stefna og aðgerðir Ísrael á hernumdu svæðunum í Palestínu jafngildi „innlimun“ (annexation), og að binda eigi enda á áframhaldandi viðveru landnema á Vesturbakkanum „eins fljótt og auðið er“.
Málaferlið hófst með beiðni allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna árið 2022.
Alþjóðadómstóllinn er æðsta stofnun Sameinuðu þjóðanna sem sér um að skera úr deilum milli ríkja. Úrskurðurinn er ráðgefandi og non-binding. En þrátt fyrir það segir mannréttindalögmaðurinn Jeffrey Nice í samtali við Al Jazeera að það verður erfitt fyrir heimsleiðtoga að hundsa úrskurð Alþjóðadómstólsins, jafnvel þó hann sé ekki bindandi.
Nawaf Salam, forseti Alþjóðadómstólsins, las upp úrskurð 15 manna dómnefndarinnar á föstudag:
Hann sagði Ísrael brjóta á 6. málsgrein 49. greinar Fjórða Genfarsáttmálans, sem kveður á um að hernámslið megi ekki flytja borgara sína inn á landsvæði sem það hefur hernumið (m.ö.o. stunda landtöku eða byggja landnemabyggðir á hernumdum svæðum).
„Landnemabyggðir Ísrael á Vesturbakkanum og í austurhluta Jerúsalem, og stjórnskipulagið sem því fylgir, er viðhaldið í bága við alþjóðalög“, sagði Salam þegar hann las upp úr niðurstöðum dómstólsins, sem má sjá hér.
Hann sagði jafnframt að stefna og aðgerðir Ísrael á hernumdu svæðunum í Palestínu jafngiltu innlimun á stórum hluta þessara svæða og að Ísrael mismuni Palestínumönnum á kerfisbundin hátt á hernumdu svæðunum (á Vesturbakkanum og í austurhluta Jerúsalem).
Alþjóðadómstóllinn komst áður að sömu niðurstöðu í svipuðum ráðgefandi úrskurði árið 2004. Þannig að það er í raun ekkert nýtt að landnemabyggðir Ísrael á Vesturbakkanum séu ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum og sáttmálum.
Flest ríki Sameinuðu þjóðanna líta á Palestínu sem svæði sem hefur verið hernumið (og jafnvel innlimað) af Ísrael. Það má því segja að þetta sé sameiginlegt álit alþjóðasamfélagsins. Þetta rennir stoðum undir þá kenningu að Ísrael er svokallað „rogue state“ sem skeytir engu um alþjóðalög og álit alþjóðasamfélagsins, eins og sannast af áframhaldandi morðherferð þeirra gegn konum og börnum á Gasa, og stöðugum loftárásum þeirra á Sýrland, sem fjallað hefur verið um á Samstöðinni.
Þá hafa mannréttindasamtökin Human Rights Watch, Amnesty International og B’Tselem öll komist að þeirri niðurstöðu í sínum skýrslum að Ísrael rekur apartheid-kerfi, svipað eða jafnvel verra heldur en apartheid-kerfið sem var við lýði á sínum tíma í Suður-Afríku, þar sem komið er fram við Palestínumenn eins og annars flokks borgara, sérstaklega á hernumdu svæðunum.
Ísrael hertók Vesturbakkann og austurhluta Jerúsalem (frá Jórdaníu) í sex daga stríðinu árið 1967. Síðan þá hefur Ísrael innlimað austurhluta Jerúsalem, og byggt upp landnemabyggðir á Vesturbakkanum, sem Alþjóðadómstóllinn segir að jafngildi innlimun á svæðum Palestínu.
Hér má sjá kort af landnemabyggðum Ísrael á Vesturbakkanum:
Og hér má sjá kort af austurhluta Jerúsalem:
Al Jazeera hefur gert greinargott yfirlit þar sem saga innlimana Ísrael á svæðum Palestínu er kortlögð.
Í öðru máli sem Alþjóðadómstóllinn er nú einnig að taka fyrir, þ.e. málið sem Suður-Afríka höfðaði fyrir dómstólnum, er verið að skoða hvort að Ísrael sé að fremja þjóðarmorð á Gasa. Í bráðabirgðaniðurstöðu sem var kveðinn upp í því máli í janúar, var Ísrael fyrirskipað að hætta árásum sínum og greiða fyrir mannúðaraðstoð á Gasa.
Þann 24. maí gaf Alþjóðadómstóllinn einnig út tilskipun sem fyrirskipaði Ísrael að hætta sókn sinni í Rafah (í suðurhluta Gasa), vegna „gífurlegrar hættu“ sem sóknin skapaði fyrir hundruðir þúsunda flóttamanna sem höfðu leitað skjóls í borginni Rafah. Dómstóllinn sagði jafnframt í tilskipuninni (sem hægt er að lesa hér) að með sókn sinni í Rafah væri Ísrael í hættu á að brjóta á þjóðarmorðssáttmála Sameinuðu þjóðanna, Convention on the Prevention and Punishment of the Crime of Genocide (1948). En tilskipunin ber heitið „Application of the Convention on the Prevention and Punishment of the Crime of Genocide in the Gaza Strip“.