Engum skal það koma á óvart en leiguverð halda áfram að hækka gífurlega. Fyrir júní mánuð samkvæmt nýjustu tölum HMS hækkuðu leiguverð um 2,5% á milli mánaða. Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs, einn helsti mælikvarði verðbólgunnar, aðeins um 0,48%.
Hlutfallið helst því hið sama og í síðasta mánuði sem er að leiguverð hækka fimmfalt meira en verðbólgan á milli mánaða. Í síðasta mánuði hækkuðu leiguverð um 3,1% á við um 0,58% hækkun á vísitölu neysluverðs. Mikil hækkun hefur einnig orðið í íbúðaverðum, eins og Samstöðin fjallaði um í gær, en hækkunin á milli mánaða var 1,5%.
Geðveikin í verðlagningu á leigumarkaði nær sennilega seint einhverju hámarki ef marka má þróunina. Stigveldisáhrif þess að leiguverð hækka stöðugt margfalt á við verðbólgu gerir það að verkum að uppsafnaðar hækkanirnar verða gífurlega háar. Þá er alltaf gott að hafa í haga að 2,5% hækkun á t.d. 300 þúsund króna leiguverði er svakalega stór upphæð miðað við samskonar prósentuhækkun á nauðsynjavörum eins og mjólkurpotti eða eggbakka, þó þær hækkanir bíti sárt líka.
Stærsti útgjaldaliður allra heimila er þó almennt húsnæðiskostnaður og því er ljóst að svona margfeldi hækkana umfram hækkun íbúðaverðs og sannarlega umfram hækkun verðbólgunnar leikur marga afar grátt.
Sú staðreynd að 75% allra leigusamninga í leiguskrá HMS eru vísitölutengdir þýðir líka að hækkanirnar fyrir leigjendur bíta á mánaðarlegum grundvelli, en ekki bara við endurnýjun samninga eða viðtöku á nýrri leiguíbúð.
Verkafólk tók á sig ákveðnar kjaraskerðingar með tilliti til uppsafnaðrar verðbólgu með nýsamþykktum kjarasamningum vegna mótvægisaðgerða yfirvalda til að hjálpa við að sporna gegn verðbólgu. Umræddar leiguhækkanir éta þó fljótt upp þær launahækkanir sem þó fengust, auknar upphæðir húsaleigubóta, áhrif frírra skólamáltíða og fleira. Svo lengi sem yfirvöld sofa á verðinum, eða hreinlega njóta góðs af ástandinu, hvort sem er þau sjálf eða þeirra vildarvinir, þá er ljóst að ástandið heldur áfram að stigmagnast.
Engar hugmyndir eru á borði ríkisstjórnarinnar um leigubremsu eða leiguþak og ekki á að byggja eina húsnæðiseiningu til að mæta húsnæðiskreppunni, heldur er áfram lögð öll áhersla á markaðsleið sem mistekst ár hvert að mæta uppsafnaðri þörf og situr föst í helsi lóðabrasks og markaðsmisnotkunar.