Talsmenn veitingamanna vilja skerða réttindi láglaunafólks vegna hás launakostnaðar

Veitingamennirnir Aðalgeir Ásvaldsson og Simmi Vill voru til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í dag. Úr varð afar venjubundin umræða úr þeirra ranni sem kenndi launakostnaði um verðlagshækkanir og endurtóku þeir tíða kröfu sína um sérkjarasamninga enn lægri launa fyrir starfsfólk veitingahúsa.

Þessari umræðu hefur verið haldið á lofti af þeim tveimur í nokkur ár og fjallaði Samstöðin í júní um þetta mál þegar að Aðalgeir tjáði svipaðar skoðanir gegn nýsamþykktum kjarasamningum. Aðalgeir er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, heildarsamtök atvinnurekenda í veitingahúsarekstri.

Í rabbi sínu á Bylgjunni í dag halda þeir félagar áróðursstríði sínu áfram gegn því að starfsfólk veitingahúsa eigi rétt á álagsgreiðslum vegna vinnu á kvöldin. Hópurinn sem vinni á kvöldin sé oft ungt fólk í námi að þau fái hærra tímakaup en fólk í dagvinnu sé „mikið óréttlæti,“ sagði Simmi.

Fyrir það fyrsta má alveg staldra við þá staðhæfingu að ungt fólk í námi sé einhverra hluta vegna ekki þess verðugt að fá álagsgreiðslur. Ungt fólk í námi hefur augljóslega bara tíma til að vinna á kvöldin og það að þau þurfi að vinna yfirhöfuð þegar að þau eru annars í fullri vinnu við nám er ef eitthvað er áfellisdómur yfir samfélaginu. Þá er það ljóst að langflest ungt fólk í námi er annaðhvort fast á leigumarkaði (hvort sem er stúdendaíbúðum eða á almennum leigumarkaði) og borgar gríðarháa leigu, sem er há á stúdentagörðunum líka. Eða þá það býr heima þar sem það hefur ekki efni á því að búa sjálfstætt. Þá liggur í augum Simma uppi að það ætti einhverra hluta vegna að fá lægri laun.

Hitt er svo auðvitað það að í orðum Simma sjálfs kemur fram tvískinnungurinn, þegar hann segir að kvöldstarfsmenn séu „oft“ ungir námsmenn. Því augljóslega er mikill fjöldi annarra starfsmanna að vinna á kvöldin líka sem eru ekki námsmenn. Raunar er það svo að algengasta vaktamynstur starfsfólks veitingahúsa í fullri vinnu eru 12 tíma vaktir á 3-3-2 daga skipulagi. Mest er að gera í veitingahúsum á kvöldin og í hádeginu og því eru langflestir starfsmenn að vinna frá því um hádegisbil til seint á kvöldin.

Simmi, sem og Aðalgeir, vilja hins vegar sér kjarasamninga sem afnema slíkar álagsgreiðslur eða í það minnsta gefa rekstraraðilum rétt til að haga þeim eins og þeir vilja.

Lukkulega virðist enginn vilji til slíkra sérsamninga hjá verkalýðshreyfingunni segja þeir í viðtalinu, „þau fái svo góða samninga núna“, sagði Aðalgeir. Nýsamþykktir kjarasamningar voru sérstaklega miðaðir að því að sporna gegn verðbólgu og í því tilliti voru samþykktar afar hóflegar launahækkanir, sem raunar voru tekjumissir með tilliti til langvarandi verðlagshækkana vegna verðbólgu, gegn því einmitt að aðgerðir yfirvalda kæmu til mótvægis. Það er því ákveðin áróðurstaktík sem Aðalgeir beitir þarna, að tala um þessa samninga sem sérstaklega „góða“ fyrir launþega.

Þá má líka hafa með í samhengi að almennt starfsfólk veitingahúsa er með því lægst launaðasta á Íslandi í dag.

Aðalgeir benti þá á að veitingastaðir séu almennt að borga 50 til 60% af þeirra veltu í launakostnað. Það er vissulega hárrétt hjá honum að launakostnaður er afar hár fyrir veitingahús, ekki síst þar sem hagnaður í besta falli er yfirleitt ekki hár í þessari tegund af rekstri. Hins vegar er það ekki svo að samfélagið og réttindi verkafólks þurfi að umturnast til þess eins að hagnast veitingahúsaeigendum.

Sérstaklega má þar hafa í huga gríðarlega neikvæð áhrif sprengingarinnar sem hefur orðið í vexti og fjölda veitingahúsa undanfarin áratug, rétt eins og með aðra hluta ferðamannaiðnaðarins. Veitingahús, ásamt hótelum, eru með þeim mannaflafrekustu iðnuðum sem til eru. Mikinn fjölda af starfsfólki þarf til að sinna slíkum rekstri. Það hefur kallað á mikinn innflutning af aðfluttu starfsfólki og eru veitingahús leiðandi í því eins og sjá má skýrt og greinilega þegar farið er á veitingahús, að mikill meirihluti starfsfólks er af erlendu bergi brotið. Þá hefur undirskrifaður blaðamaður áður unnið árum saman á ýmsum veitingastöðum og getur staðfest það af eigin raun.

Það er ekki slæmt vegna þess um sé að ræða innflytjendur, heldur er þar um að ræða áhrifin á innviði landsins eins og Samstöðin hefur fjallað rækilega um undanfarið. Mannaflafrekur iðnaður sem reiðir sig á aðflutt vinnuafl reynir gríðarlega á húsnæðismarkaðinn og veldur miklu álagi á grunninnviði eins og skóla, leikskóla og ekki síst heilbrigðiskerfið með þeirri miklu fólksfjölgun sem hefur orðið hér á landi samhliða vexti ferðamannaiðnaðarins.

„Þetta er mjög vanhugsað, og sérstaklega í ljósi þess hvað ferðaþjónustan í heild sinni, og veitingarekstur er klárlega mjög stór þáttur í því ef ekki sá stærsti, er bara orðin ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar,“ sagði Simmi í viðtalinu. Ef þeir tveir tala fyrir veitingamenn almennt þá er ljóst að þeir skilja ekki eigin stöðu og áhrif. Eðlilegt er að vilja verja eigin stöðu og óska fyrirtæki sínu velfarnaðar, fyrir það skal ekki álasa neinum. Hins vegar er ekki svo að rekstur þeirra fyrirtækja sé eintóm bón og blessun fyrir íslenskt samfélag, langt því frá.

Að lokum má alveg segja það að geti veitingahús ekki borgað laun sem dugi til grunnframfærslu starfsfólksins, sem það oft gerir ekki vegna okurkostnaðar á leigu og nauðsynjavara, þá er alveg tilefni til þess að skoða það hvort rekstrargrundvöllur sé fyrir slíkt veitingahús. Þ.e. fremur en að afnema harðunnin réttindi verkafólks.

Þeim félögum til varnar nefndu þeir einnig ýmsa þætti eins og himinhá leiguverð veitingahúsa, áhrif verðbólgu á hráefnakostnað og skattlagningu hins opinbera. Það er þó ljóst að þeirra áhersla er gjarnan á að lækka laun láglaunafólks.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí