Það er óhætt að segja að aukaaðalfundur Blaðamannafélagsins sem haldinn var í gærkvöld hafi verið átakafundur. Svívirðingar gengu manna á millum og náðu líklega ákveðnum hápunkti, að sögn viðstaddra, þegar Agnes Bragadóttir, fyrrverandi blaðamaður Morgunblaðsins, og Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri á Útvarpi Sögu, kölluðu Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, fjölmiðlakonu sem hefur komið víða við svo sem á Stöð 2 og Fréttatímanum, í heyrandi hljóði „tussu“.
Tveir aðrir blaðamenn, Björn Þórláksson og María Lilja Ingveldar-Þrastardóttir Kemp, fara yfir þennan átakafund við Rauða borðið í kvöld. Bæði eru sammála að þessi fundur hafi ekki verið stéttinni til sóma. Í mjög stuttu máli má segja að á fundinum hafi tvær fylkingar tekist á: annars vegar fyrst og fremst blaðamenn sem hafa lagst í helgan stein, eldri borgarar, sem flestir styðja fyrrverandi formann Hjálmar Jónsson, og svo yngri, starfandi blaðamenn. Stuðningur við Sigríði Dögg Auðunsdóttur, núverandi formann Blaðamannafélagsins, er meiri innan síðarnefndu fylkingarinnar en þó ekki eins afgerandi og stuðningur við Hjálmar er meðal eldri blaðamanna.
Með öðrum orðum þá eru deilur Hjálmars og Sigríðar Daggar orðnar að hálfgerðum kynslóðaátökum innan félagsins. Þessi átök virðast þó vera svo hörð og andstyggileg að sumir tala af fullri alvöru um að félagið klofni ef svo heldur áfram.
María Lilja segir að eldra fólkið hafi verið áberandi dónalegra á fundinum. „Bara svo það sé sagt, þá sendu eldri borgarar ekki sína bestu menn og málsvara í gær. Enda kom mikill dónaskapur frá þessum ákveðna hópi. Orð eins og „tussa“ og einhver svona ljót niðrandi orð. Þegar Þóra Kristín var að tala, hún var að tala gegn þessum hópi, þessari órólegu deild sem fylgir Hjálmari. Það voru framíköll, þetta er eitthvað sem maður á ekki að venjast. Þær voru þarna Agnes Bragadóttir og Arnþrúður Karlsdóttir sem sátu og kölluðu hana „tussu.“
Meira af þessum skammarlega fundi má heyra við Rauða borðið í kvöld