Brynjar Níelsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í viðtali við Þingið, sem sýnt verður á Samstöðinni í kvöld, að æ fleiri Sjálfstæðismenn sjái ekki fyrir sér að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins og forsætisráðherra, muni leiða flokkinn áfram. Ein ástæða að ekki sé háværari krafa um skipti í brúninni kunni að vera að enginn augljós arftaki sé til staðar. Í viðtali við Björn Þorláks segir Brynjar um Bjarna:
„Hann náttúrulega stendur með ábyrgðina á þessu ástandi. Mér finnst hann öflugur stjórnmálamaður.“
Hvers tími er liðinn?
„Svo kann að vera, að það lifi enginn formaður lengur en 12 ár, eins og dæmi eru um. Það er svo erfitt að vera í forystunni í svo langan tíma. Þá missir fólk þolinmæðina. Það kann að vera að hans tími sé liðinn. Að hann segi bara: „Ok ég hef ekki náð að rífa þetta upp og það er kominn tími til að aðrir reyni sig.“
Upplifir þú að þessari skoðun sé að vaxa fiskur um hrygg innan Sjálfstæðisflokksins, að æ fleiri telji að Bjarni sé kominn á endastöð?
„Já, ég held að það sé alveg ljóst en margir hafa þó tröllatrú á honum, eins og ég, ef eitthvað snýst núna, að hlutirnir breytist. Því ég sé engan augljósan arftaka heldur.“
Er það ekki hluti klemmunnar, krísunnar, að jafnvel ef þið mynduð vilja skipta um mann í brúninni þá er bara enginn…
„Ráðherrar flokksins, og jafnvel Bjarni, hafa þennan vetur til að snúa þessu við, bara fyrir áramót. Það er tíminn svo menn öðlist trú, að menn sem aðhyllast okkar stefnu séu ekki að fara út og suður.“
Þetta eru bara þrír mánuðir.
„Það gerist margt á þremur mánuðum. Ég hef séð fylgi fara úr 40 prósentum niður í 14 prósent á nokkrum vikum.“
Liðurinn Þingið hefur göngu sína í kvöld á ný eftir sumarhlé. Að þessu sinni munu píratinn Björn Leví Gunnarrson og Brynjar Níelsson ræða stöðuna í pólitíkinni og á Alþingi.