„Núna kom sú beiðni frá öryggisfyrirtækinu sem hefur séð um gæslu á böllum hjá okkur, um að fá að bæta við málmleitartækjum. Svona í ljósi þeirrar þróunar sem hefur orðið síðustu daga, þá viljum við gjarnan gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja öryggi nemenda á ballinu. Við höfum meiri áhyggjur af þessu balli en öðrum á árinu, þetta er stærsta ballið okkar og það fyrsta, þarna erum við að bjóða nýnema velkomna. En þetta er stórt ball, það eru fleiri nemendur en bara okkar á þessu balli.“
Þetta segir Sólveig Guðrún Hannesdóttir, rektor Menntaskólans í Reykjavík, í viðtali við Rauða borðið sem sýnt verður í kvöld. Sólveig Guðrún upplýsti bæði nýnema og forráðafólk þeirra á fjölmennum fundi í gær að öryggisgæsla verið hert til muna á væntanlegu busaballi skólans. MR-ingar og önnur ungmenni munu því þurfa ganga í gegnum fyrrnefnt málmleitartæki til að fá inngöngu á ballið.
„Ég vona að það veiti öryggistilfinningu en ekki hræðslutilfinningu, það er ekki ætlunin með þessu. Ég vil líka ítreka, ég er það bjartsýn, að ég trúi því að lang, lang flestir sem eru að sækja framhaldsskólaböll séu að koma þangað til að skemmta sér vel og fallega. Þetta er bara gert sem varúðarráðstöfun.“
Ítarlegt viðtal við Sólveigu Guðrúnu Hannesdóttur, rektor MR, má sjá og heyra við Rauða borðið í kvöld.