„Þessar kosningar koma svo bratt, það vissi enginn hvenær yrði tekið í gikkinn. Það eru allir í vægu sjokki. Ég upplifi djúpstæða óánægju og vanlíðan hjá þorra þjóðarinnar. Og fólk vill lausn á því einhvern veginn. Ég las pistil sem birtist á Heimildinni í gær um að 70 prósent þjóðarinnar upplifir að landið sé á rangri leið. Þar var meðal annars tekið fyrir heilbrigðiskerfið og vöruverð og allt mögulegt. Ég held að það sé ekki eitthvað eitt en ég hugsa að það vanti flokk sem er tilbúinn að leysa öll vandamál allra landsmanna og þá er þetta komið.“
Þetta var svar Braga Páls Sigurðssonar rithöfunds þegar hann var spurður við Rauða borðið í gær um hvað komandi kosningar snúast. Hann sat við Rauða borðið í gær ásamt Hrafni Jónssyni kvikmyndagerðarmanni og Lóu Hjálmtýsdóttur myndlistarkonu en saman reyndu þau að svara þessari spurningu. Um þetta hafði Hrafn þetta að segja:
„Svona stórar opnar spurningar eru áhugaverðar því þær segja ekki mikið í sjálfu sér en þær gefa tilfinningu fyrir ákveðnu sentimenti í þjóðinni. Ónotatilfinning. En svo er það stjórnmálana að finna lausn við því eða ekki. Ein af ástæðunum fyrir því að þú svarar spurningunni svona, að við séum ekki á réttri leið, það eru allskonar þættir. Húsnæðismál, vaxtamál en það líka hvort þú treystir pólitíkinni sem stofnun til að leysa þessi vandamál. Ég held að það sé ekki rosalega mikið traust til stjórnmála sem stofnun.“
Hér fyrir neðan má sjá og heyra umræðuna í heild sinni.