Það er líklega ekki margir íslenskir fræðimenn sem hafa rannsakað íslenskar elítur og elítuhugsun jafn ítarlega og Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur. Haukur færði rök fyrir því í bók sinni, Um Alþingi: Hver kennir kennaranum?, að þingmenn séu að meirihluta elítufólk og rentusókn þeirra áberandi. Með öðrum orðum, þá sé hugmyndin um að Alþingi endurspegli þjóðina einfaldlega algjör mýta. Haukur ræddi íslenskar elítur ítarlega í viðtali við Rauða borðið í gær.
En hvað gerir elítumann að elítumanni? Haukur segir að á Íslandi snúist það mest um fjölskyldutengsl sem og þjóðfélagsstöðu. „Það sem ég mæli með þjóðfélagsstöðu, er staða foreldra. Annars vegar hvort þeir séu frægir eða hins vegar hvort þeir hafi háa þjóðfélagsstöðu. Það kemur í ljós að 63 prósent þingmanna eru með annaðhvort með ættartengsl við aðra þingmenn eða hafa sterka þjóðfélagsstöðu,“ segir Haukur.
Þrátt fyrir þetta þá segir Haukur það ekki svo einfalt að elítur séu ávallt af hinu illa. Sögulega, og jafnvel enn í dag, þyki jákvætt að lönd hafi sína elítu. „Það er til dæmis jákvætt að hafa margar elítur. Þannig er jákvætt að hafa listamannselítu, rithöfundaelítu, skólaelítur og svo framvegis, dómaraelítur, elítu í stjórnarráðinu. Þá gengur það út á valddreifingu. Þetta var mikið verra 1930 til 1940 þegar stjórnmálin drottnuðu yfir öllu en listgreinar og menntagreinar voru mjög veikar. Það er jákvætt að hafa marga sterka póla í þjóðfélaginu,“ segir Haukur.
Haukur segir þó að sjálfsögðu margt neikvætt við elítur. „Á okkar dögum, í okkar samfélagi, þá er það ríkisvaldið sem er langsterkasta örlagaaflið í lífi allra. Það hefur einkaleyfi á ofbeldi, setur þjóðfélaginu reglur, lög, skatta og skyldur. Allur rammi okkar lífs kemur frá því. Þannig að allar elíturnar hverfast um stjórnmálaelítuna, að hafa áhrif á hana,“ segir Haukur.
Hér fyrir neðan má sjá ítarlegt viðtal Rauða borðsins við Hauk í heild sinni.