„Er sjálfstæði Seðlabankans mikilvægara en sjálfstæði þjóðar?,“ spyr Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og frambjóðandi Flokk fólksins, á Facebook. Hann segir í pistli um málið að Seðlabankastjóri hafi ráðist gegn grunnstoðum samfélagsins og að í barátta hans gegn verðbólgu hafi hann fylgt hagfræðikenningum sem einungis þóknast þeim sem eiga fjármagn, ekki almennum borgurum.
„Verkalýðshreyfingin var nauðbeygð til að fara í einu og öllu eftir tilmælum Seðlabankans, sem hækkaði vexti upp úr öllu valdi til að ná sínu fram. Og nú keppast frambjóðendur við að lofa niðurskurði í ríkisrekstri og fara í einu og öllu eftir “tilmælum” Seðlabankans. Eins og verðbólga síðustu ára hafi verið drifin af hallarekstri ríkissjóðs. Það er engu líkara en flestir frambjóðendur til Alþingis hafi ekki lesið sér til gagns um helstu drifkrafta verðbólgu síðustu ára. Eða hefur fólk ekki áttað sig á því að verðbólga er komin niður um helming en stýrivextir ekki nema um 0,75%? Eftir hverju er verið að bíða?,“ spyr Ragnar og heldur áfram að spyrja:
„Hvaða grunnstoðir samfélagsins mun Seðlabankastjóri ráðast gegn næst í baráttu sinni við háa vexti og verðbólgu? Er Seðlabankinn í raun að berjast gegn verðbólgu eða fylgja eftir hagfræðikenningum sem í einu og öllu þóknast fjármagninu og sérhagsmunum? Hversu mikilvægt er sjálfstæði Seðlabankans á móti sjálfstæði heillar þjóðar og hver verður fórnarkostnaður þjóðarinnar í að verja sjálfstæði eins manns og einnar stofnunar?“
Hann veltir því fyrir sér að lokum hve dýru verði þetta sjálfstæðis Seðlabankans mun kosta. „Mun það kosta fjárhagslegt sjálfstæði tugþúsunda, sem allt stefnir í? Mun það kosta sjálfstæð mannslíf á ónýtum þjóðvegum eða í fjársveltu heilbrigðiskerfi? Mun það kosta sjálfstæð líf þeirra sem þola ekki álagið sem fylgir fjárhagslegri óvissu og síversnandi lífskjörum? Mun það kosta sundrungu sjálfstæðra fjölskyldna og sjálfstæði barna þeirra?,“ skrifar Ragnar Þór.