Viðar Þorsteinsson, fræðslustjóri Eflingar og fyrrverandi framkvæmdastjóri stéttarfélagsins, segir að viðbrögð sumra við áratuga gömlum skrifum Þórðar Snæ Júlíussonar, frambjóðanda Samfylkingarinnar og fjölmiðlamanns, einfaldlega öfgafull og engum til gagns. Spursmál á mbl.is rifjuðu upp í vikunni bloggsíðu Þórðs, þar sem hann kallaði sig German Steel, eða þýska stálið. Þar mátti finna vafasöm ummæli um konur sem Þórður lét falla um aldarmót. Hann hefur beðist afsökunar á þeim.
„Það er sannarlega sjokkerandi að lesa gömul skrif Þórðar Snæs. Ágætis áminning um að klámvæðingin sem kom með internetinu og samtímis bakslagi jafnfréttisbaráttunnar í kringum 2000 fór víða. Við erum enn að kljást við hana og hún heldur áfram að brengla sýn fólks. En Þórður Snær, sem hefur getið sér gott orð fyrir frábær störf sem blaðamaður síðustu áratugi, hefur beðist afsökunar á þessu. Það er ekki einhver hetjudáð, það er bara rétt hjá honum og gott að hann skyldi gera það,“ segir Viðar á Facebook.
Hann segist ekki skilja tilganginn með því að láta eins og Þórður sé óforbetranlegur kvenhatari. „Nú sé ég að sumt fólk vill halda áfram út í eitt að núa honum þessu um nasir. Það skil ég ekki, og mér finnst það ekki í samræmi við tilgang þess að halda uppi gagnrýni á þessa hluti. Tilgangur gagnrýninnar er að fá menn til að breyta hegðun sinni. Það er langt síðan Þórður Snær hætti þessari hegðun, væntanlega af því að hann (ólíkt mörgum) var fær um að þróa áfram skilning sinn á heiminum og sjálfum sér,“ segir Viðar og bætir við að lokum:
„Þegar menn biðjast afsökunar í einlægni og lýsa iðrun þá á að viðurkenna að það þýði eitthvað, ekki halda áfram stanslausri fordæmingu sem jafnar saman hinum óforbetranlegu og þeim sem sjá að sér. Slíkt gerir tilgang þess að reyna að breyta hlutunum að engu.“