Össur Skarphéðinsson hlífir hvergi þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Jóni Gunnarssyni, í færslu á facebook.
Undir fyrirsögninni „Súrrealismi í boði Sjálfstæðisflokksins“ segir Össur aumkunarvert
þegar flett hafi verið ofanaf hrossakaupum og spillingu innan Sjálfstæðisflokksins, að þá bregðist sá sem flett er ofan af við með tilraun til að kenna nafngreindum frambjóðendum Samfylkingarinnar um uppljóstrunina. „Tilefnið? Jú, frambjóðendurnir unnu einhvern tíma með fréttamönnum Heimildarinnar. Þeir ágætu fréttamenn hafa reyndar ekkert til saka unnið í þessu ótrúlega máli annað en birta efni sem þeim var sent og virðist svo sannarlega eiga erindi við þjóðina,“ segir Össur og heldur áfram:
„Þegar menn standa í skít upp að hálsi bjargar það aldrei neinu að kasta skítnum í saklausa áhorfendur. Slíkur darraðardans ýtir mönnum yfirleitt lengra niður í kviksyndið. Þannig gefur samtalið sem Heimildin birti fulla ástæðu til að krefjast þess að hlutverk forystu Sjálfstæðisflokksins verði rannsakað í kjölinn. Þar er nefnilega fullyrt af innvígðum Sjálfstæðismanni að hún hafi vitandi vits ætlað Jóni Gunnarssyni að gefa út hvalveiðileyfi m.a. í þeim tilgangi til að ná til baka atkvæðum sem tapast höfðu vegna aumingjaskapar flokksins á fyrri stigum málsins. Semsagt, flokkshagsmunir fram yfir almannahagsmuni – enn einu sinni. Varla stöðvast þó frjálst fall flokksins í skoðanakönnunum við þessa tragísku uppákomu.“
Og þannig endar Össur mál sitt: „Líklega má þó þakka Jóni Gunnarssyni og óopinberri stassjón Mossads að frjáls fjölmiðlun, auðlindasukk og meint spilling Sjálfstæðisflokksins verða mun ofar á dagskrá kosninganna en ætla mátti í upphafi.“