Bjarni hættur á þingi og sækist ekki eftir að verða formaður áfram

„Ég hef ákveðið að gefa ekki kost á mér í formannskjöri á komandi landsfundi Sjálfstæðisflokksins,“ skrifaði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins á Facebook rétt í þessu. Hann segir af sér þingmennsku og ætlar ekki að sækjast eftir endurnýjuðu umboði sem formaður Sjálfstæðisflokksins en sitja sem formaður fram á næsta landsfund, sem ráðgert er að halda í lok febrúar.

„Það hafa verið forréttindi og heiður að leiða flokkinn frá árinu 2009. Ég skil sáttur við mín verk, þakklátur fyrir stuðninginn og stoltur af mínum störfum sem þingmaður í tæplega 22 ár,“ heldur Bjarni áfram á Facebook þar sem hann fer yfir feril sinn.

„Ég hef fengið mörg tækifæri á sviði stjórnmálanna en aldrei tekið því sem sjálfsögðum hlut að endurnýja umboð mitt, síðast í kosningunum í nóvember, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk áfram flest atkvæði í kjördæmi mínu. Ekkert hefur þroskað mig meira og mótað í lífinu en að fá að glíma við öll þessi flóknu úrlausnarefni sem þingmaður og ráðherra, eiga samtal við kjósendur og standa þeim reikningsskil af verkum okkar.

Á þessum tímamótum hef ég hins vegar ákveðið að sækjast ekki eftir endurnýjuðu umboði til forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Nýafstaðnar kosningar skiluðu Sjálfstæðisflokknum næst flestum þingmönnum á Alþingi, þar sem hann var rúmu prósentustigi minni en sá stærsti.

Stærstu tveir flokkarnir eru báðir talsvert frá sínum fyrri hæðum, og sögulega eru úrslitin ekki nægilega góð fyrir okkur sjálfstæðismenn. En eftir langa setu í ríkisstjórn, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn tók ábyrgð á stjórn landsmálanna meðan aðrir reyndu að byggja sig upp í stjórnarandstöðu, vann flokkurinn ágætan varnarsigur.

Í stjórnarandstöðu opnast ný tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem á að nýta kjörtímabilið til að styrkja samband sitt við hinn almenna kjósanda og skerpa á forgangsmálum. Á komandi landsfundi verður kosin forysta sem fær það hlutverk að móta áherslur kjörtímabilsins og vinna að góðum sigri flokksins í næstu kosningum. Ég finn að það er rétt ákvörðun að eftirláta öðrum að móta það starf.

Ég hef verið þingmaður í Suðvesturkjördæmi frá árinu 2003 og tók fyrst sæti á þinginu 33 ára gamall. Síðar í mánuðinum verð ég 55 ára. Þetta hefur verið lengri þingseta en ég hefði nokkurn tímann getað ímyndað mér og mikill heiður að hafa notið slíks trausts.

Undanfarna daga hef ég átt með mínum nánustu til að líta yfir farinn veg, ræða og hugsa um framtíðina. Ég finn að þetta er rétti tíminn til að breyta til. Það er ekkert launungarmál að ég mun njóta þess að hafa meiri tíma í framtíðinni með fjölskyldunni, sem hefur farið stækkandi, og til að sinna öðrum hugðarefnum.
Í ljósi þessara aðstæðna hef ég ákveðið að taka ekki sæti á því þingi sem hefst síðar í mánuðinum. Næstu vikur ætla ég að taka mér frí en hyggst svo taka mín síðustu skref á pólitíska sviðinu og kveðja vini mína í Sjálfstæðisflokknum á landsfundinum sem framundan er, þar sem blásið verður til sóknar fyrir þjóðlífið allt.

Hér er ekki ætlunin að gera upp við allan þennan tíma, það geri ég e.t.v. síðar, en ég vil nota tækifærið og þakka öllu samferðarfólki mínu í fjölbreyttum hlutverkum, flokksfólki, þingmönnum úr ólíkum flokkum, ráðherrum, sveitarstjórnarfólki, starfsfólki á Alþingi og í stjórnarráðinu, embættismönnum og síðast en ekki síst þér, hinum almenna kjósanda, þakka ég öll samskiptin – saman höfum við unnið að því að gera gott samfélag enn betra,“ segir Bjarni að lokum.

Myndin er af síðu Bjarna á Facebook.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí