Fjöldi kennara hefur í dag lýst því yfir á samfélagsmiðlum að þeir leiti að atvinnu. Um ræðir framtak þar sem samræmdum texta virðist í flestum tilfellum vera dreift. Vitað er um einhverja kennara sem hafa nú þegar skrifað uppsagnarbréf.
Marta Wieczorek, grunnskólakennari og varaþingmaður Flokks fólksins, er í hópi þeirra sem hafa deilt atvinnuleit sinni á facebook síðu.
Í textanum segir Marta meðal annars:
• Hef góða færni í að leiða hópa og verkefni, hvetja samstarfsfólk og skapa jákvætt vinnuumhverfi.
• Leysi vandamál á skilvirknan hátt.
• Á auðvelt með árangursrík samskipti við ólíka hópa og einstaklinga.
• Á auðvelt með að tileinka mér nýjar aðstæður, tækni eða verklag.
• Reynsla í að stjórna mörgum verkefnum samtímis og tryggja skil á réttum tíma.
• Hæfni til að nýta fjölbreyttar aðferðir við lausn verkefna og laga sig að mismunandi aðstæðum.
• Geta til að meta stöðu, greina gögn og taka upplýstar ákvarðanir.
• Hæfni til að setja skýr markmið og vinna skipulega að því að ná þeim.
• Færni til að vinna með öðrum, deila hugmyndum og byggja upp jákvæða liðsheild. Mikil þolinmæði og samkennd.
• Mikill drifkraftur til að ná árangri. Sýni frumkvæði, sjálfstæði og jákvæðni í starfi.
Þessa eiginleika telja kennarar að starfsstétt þeirra þurfi að uppfylla á degi hverjum.
Kennari sem Samstöðin ræddi við segir það hafa verið „ólýsanleg vonbrigði“ að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi ekki samþykkt innanhússtillögu sáttasemjara.