Fyrsta málið á dagskrá borgarstjórnar í dag var umræða um atvinnulífið í borginni, staða, áherslur og tækifæri (að beiðni borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar). Það sem Sósíalistum finnst mikilvægt að koma á framfæri:
Réttindabrot gegn vinnandi fólki eiga sér stað hér á landi þar sem harkhagkerfið (e. gig economy), gul verkalýðsfélög og slæm framkoma í garð verkafólks í gegnum starfsmannaleigur á sér stað. Í nýlegum fréttaskýringaþætti Kveiks um vinnumannsal og misbeitingu á íslenskum vinnumarkaði er fjallað um fjölda starfsmanna frá starfsmannaleigum og hvernig réttindi þeirra eru tryggð. Í svari Reykjavíkurborgar kom fram að ekki væri sérstakt eftirlit með réttindum þess hóps sem kemur í gegnum starfsmannaleigur og að borgin væri því ekki með upplýsingar um fjölda starfandi hjá fyrirtækjum í verkefnum Reykjavíkurborgar sem kæmu í gegnum starfsmannaleigur. Sósíalistar telja þetta ganga gegn markmiðum borgarinnar um keðjuábyrgð. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg nýti rödd sína til að fordæma brot á vinnumarkaði og sé meðvituð um þátttöku sína sem atvinnurekandi.