Árni Björnsson þjóðháttafræðingur segir í færslu á facebook að sitthvað hafi verið forvitnilegt í fyrsta þætti sjónvarpsraðar á Rúv um matarsögu Íslendinga, sem sýndur var á sunnudagskvöld. Sumt var honum þó ekki að skapi.
Árni hælir því sem Guðrún Hallgrímsdóttir matvælaverkfræðingur hafi lagt til málanna.
„Annað var upp og ofan og gætti nokkurs hugarflugs.“
Þjóðháttafræðingurinn segir að sumum áhorfendum hefði getað skilist af efninu að þúsund manna veislur hefðu verið algengar hér á árum áður. En í reynd hefðu veislustofur ekki rúmað nema í mesta lagi nokkur hundruð.
Þá segir Árni einnig:
„Klifað var á þeirri sögufölsun 19. aldar að landnámsmenn hefðu verið norrænir víkingar, en flestir aðrir þrælar eða Írar. Einu sinni enn skal ítrekað að landnemar voru að langstærstum hluta bændur, ýmist af norsku bergi brotnir eða keltar frá skosku eyjunum. Fremur fáir voru beint frá Írlandi og þrælahaldið þótti ekki borga sig til lengdar svo flestir urðu brátt leysingjar.“