Þóra Kristín Ásgeirsdóttir blaðamaður vitnar til þess í færslu á facebook að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi sagt í gær: „Fáum trúna til að snúa aftur, færum guð aftur í líf okkar.“
Hinn reyndi blaðamaður er ekki par hrifinn af orðum forsetans og gjörðum síðustu daga, enda má segja að ef svo fer sem horfir standi ekki steinn yfir steini í því skipulagi og réttlæti sem reynt hefur verið að ná sátt um.
„Trump er orðinn talibani vestursins,“ segir Þóra Kristín og lætur Bandaríkjaforseta heyra það.
„Talar mjúkmáll um Guð og kristin gildi milli þess sem hann skipar fyrir um niðurrif á samfélaginu og illvirki gegn þeim sem minnst mega sín.“
Framlag Trumps til utanríkismála er að hóta nágrannaþjóðum innrás og taka utan um alla grimmustu einræðisherrana og hvetja þá áfram að sögn Þóru Kristínar. „Nú síðast með því að vilja reka eftirlifendur þjóðarmorðsins á Gaza úr landi, til að hægt sé að reisa vestræna sólarparadís á gröfum barnanna sem voru myrt. Deiluna í Úkraínu vill hann leysa með því að þvinga þjóðina til að ganga nær skilyrðislaust að öllum kröfum rússneska innrásarliðsins. Og það er áhyggjuefni að það eru líka til íslenskir stjórnmálamenn sem mærðu þennan mann og tala núna mjúkum rómi um kristin gildi og mikilvægi þess að efla trúna með því að skerða mannréttindi þeirra sem minnst mega sín. Og það er fullt af fólki sem gleypir beituna.“
Þóra Kristín endar beitta ádrepu sína á eftirfarandi orðum:
„Hvers á guð að gjalda?“