Óhætt er að segja að upplýsingafulltrúi Flokks fólksins, Heimir Már Pétursson, vandi Ríkisútvarpinu ekki kveðjurnar í pistli á facebook.
Heimir Már hefur haldið sér til hlés síðan mál Ástu Lóu Þórsdóttur varð fyrsta frétt í kvöldfréttum Rúv sl. fimmtudag en ráðherrann sagði af sér í kjölfarið.
Heimir Már skrifar:
„Fullyrðing um að Ásta hafi verið leiðbeinandi piltsins og þar með í valdastöðu er röng. Fullyrðing um tálmun er röng. Fullyrðing um að pilturinn hafi verið 15 ára þegar samlíf hans og Ástu hófst er röng. Fullyrðing um að um þvingun hafi verið að ræða gagnvart piltinum er röng, að hans sögn sem staðfestir frásögn Ástu.
Um öll þessi svör kærði Ríkismiðillinn sem þykist vandur að virðingu sinni ekki. Þegar viðtalið var tekið við Ástu kl rétt rúmlega sex hafði “frétt” án hennar sjónarmiða verið send út í Speglinum kl 6 og fyrir lá klippt sjónvarps “frétt” full af rangfærslum með tilvitnunum í hegningarlög nútímans og refsirammi þeirra laga tíundaður. Grafík og alvöruþrungin “stand-up” sem tekin voru upp áður en allar ásakanir höfðu verið sannreyndar. Öll “fréttin” án sjónarmiða Ástu.
Þegar viðtalið við Ástu var loks tekið upp, sem ég var vitni að, vissi fréttamaðurinn síðan ekki hvaðan á hana stóð veðrið þegar hún sat uppi með eina skúbb málsins: Að ráðherrann hafði sagt af sér og ekki hægt að krefja hana afsagnar. Enginn eftirför framundan í marga daga eða vikur … eða hvað???
Eftir þetta kom fát á fréttamanninn gerði sig líklega til að láta viðtalinu lokið, þannig að minna þurfti hana á að það væri kannski rétt að spyrja frekari spurninga. -Hvers vegna lá „fréttastofu allra landsmanna“ svona mikið á að siðareglur voru látnar fjúka út í veður og vind?
Skildi það vera óttinn við að einhver annar yrði fyrri til höggs …. einhver í hrútakofanum við Hádegismóa kannski? Heimilisfang sem kannski ætti að breyta í Útímóa og Efstaleitinu í Neðstaleiti?“
Skrifar Heimir Már og er augljóst að þunginn innan flokksins vegna fréttaflutnings Rúv er gríðarlegur.