Stjórnvöld hér á landi fá falleinkunn hjá Viðskiptaráði fyrir að hafa ekki gripið til róttækra ráðstafana til að bæta hag einkarekinna fjölmiðla, sem eru í raun í frjálsi falli. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um fjölmiðla, sem Samstöðin sagði frá í gær. Gæti að óbreyttu farið svo að Ríkisútvarpið eitt muni segja fréttir í framtíðinni og standa fyrir dagskrárgerð. Þegar Fréttablaðið fór á hausinn báru stjórnendur því við að mestu hefði varðað um yfirburðastöðu Rúv á auglýsingamarkaði að svo fór sem fór. Síðan hafa nokkrir fleiri fjölmiðlar lagt upp laupana eða sameinast.
„Frá hagræðingaraðgerðum hjá RÚV árið 2013 hefur starfandi hjá stofnuninni fjölgað um 13% samanborið við 62% fækkun á einkareknum miðlum. Þannig hefur umfang einkarekinna fjölmiðla dregist saman, hvort sem litið er til fjölda starfandi eða í samanburði við RÚV,“ segir í skýrslunni.
Um 800 störf hafa tapast hjá einkareknum miðlum á stuttum tíma en ríkisbáknið þenst út.
Staða Rúv á auglýsingamarkaði er einstæð svo horft sé til nágrannalanda samkvæmt skýrslu Viðskiptaráðs. Opinber stuðningur við frjálsa fjölmiðlun er ekki upp í nös á ketti miðað við að Rúv fær á tíunda milljarð króna að spila úr á yfirstandandi rekstrarári, mest vegna nefskatts.