Lítið mál er að stöðva málþóf minnihlutans á Alþingi hverju sinni. Til er ákvæði í lögum sem hægt er að virkja og ef því er beitt yrði kosið um niðurstöðuna. Vænta má þess að meirihluti ríkisstjórnar myndi hafa betur að jafnaði í slíkri kosningu og væri þá hægt að stöðva málþóf með vísan í niðurstöðu atkvæðagreiðslu þingmanna.
Þetta kom fram hjá Ólafi Þ. Harðasyni prófessor emeritus í stjórnmálafræði við Rauða borðið í gær. Hann kallar íslenska málþófshefð “mikinn ósið” og segir málþófshefðina einstæða meðal evrópskra ríkja. Sjá seinni hluta viðtalsins við Ólaf með því að smella á myndina að ofan.
Það virðist hafa komið mörgum landsmanninum á óvart að til sé ákvæði í íslenskum lögum sem hægt bæri að beita gegn málþófi.
”Aldrei hef ég heyrt af tilvist þessa ákvæðis. En vitandi það nú er mér óskiljanlegt að það sé ekki fyrir löngu búið að virkja það. Mér finnst það alveg óþolandi þegar stjórnarandstöðu þingmenn taka þingstörfin í gíslingu, sem getur jafnvel staðið yfir dögum saman. Og ég er sannfærður um að fjöldi kjósenda, þvert á flokka, er á sömu skoðun og ég hvað þetta varðar,” segir Rögnvaldur Bjarnason í athugasemd við færslu Ólafs Þ. þar sem prófessorinn deilir viðtali Samstöðvarinnar.
Fram hefur komið á Samstöðinni í vikunni að þingmenn meirihlutans telja að loft hafi súrnað mjög innan veggja Alþingis eftir að ríkisstjórnin lagði fram frumvarpsdrög í samráðsgátt um hækkun eriðigjalda.
Minnihlutinn virðist ætla að beita málþófi í stórum stíl til að koma í veg fyrir að aukin gjaldtaka verði að veruleika með veiðigjöldum. Virðist gilda einu hvað mótstöðu við slíkar hugmyndir varðar innan kerfisins.
Jafnvel moldrík sjávarútvegsfélög sem eru á góðri leið með að kaupa upp drjúgan hluta af öðru atvinnulífi í óskyldum rekstri fyrir hagnaðinn af sjávarútvegi, væla nú eins og stungnir grísir yfir örlítið hærra afnotagjaldi að sameiginlegri auðlind landsmanna.