Vondar fréttir berast af aukningu koltvísýrings í lofthjúpnum. Aukning milli ára er sú langmesta sem nokkru sinni hefur orðið að veruleika.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur bendir á þessa staðreynd og vísar til samantektar NOAA. Milli áranna 2023 og 2024 sést stökkið á meðfylgjandi mynd. Þetta er meiri aukning en frá upphafi mælinga, árið 1960.
Í samantekt NOAA má sjá að koltvísýringur jókst meira á milli áranna 2023 og 2024 en dæmi eru um frá því farið var að fylgjast grannt með laust fyrir 1960.
Vöxturinn er ekki rakinn til meiri losunar heldur skertrar getu náttúrunnar til að taka til sín hluta af útblæstrinum.
„Til þessa hefur um helmingur losunar mannsins frá upphafi iðnbyltingar hafnað með einhverjum hætti í hafinu eða með lífríki (ljóstillífun) á landi,“ segir Einar.
„Margt bendir til þess að miklir þurrkar t.d. í Amason-frumskóginum og víðar reyndar, hafi takmarkað getu skógarsvæða til að taka til sín koltvísýring úr lofti. Og munar um minna!“
Í fyrra var El-Nino ár og vel er þekkt að þá eru frekar þurrkar í hitabeltisskógunum og minni upptaka kolefnis, bendir Einar á.
„Eins ollu þurrkar meiri skógareldum en venja er til. Þá snýst kolefnisflæðið vitanlega við.“