Kristinn Hrafnsson skrifar á fb síðu sína sláandi skýrslu frá kvikmyndahátíðinni í Cannes í Frakklandi. Þar er verið að frumsýna heimildarmynd sem Kristinn segir að fjalli ,,um það gjald sem Julian þurfti að greiða í 14 ár, meðal annars fyrir að opinbera stríðsglæpi heimsveldisins sem stendur þétt við bakið á barnamorðingjunum.“ Kristinn minnir á að Julian hafi að lokum haft betur, einmitt vegna þess að fólk lét sig málið varða.
,,Julian Assange mætti í myndatöku í dag í bol með nöfnum 4,986 barna, öll undir fimm ára, sem ísraelsher hefur myrt á Gaza á hálfu öðru ári. Talan hefur hækkað síðan bolurinn var prentaður fyrir fáum dögum og ef ekki er gripið inn í strax bætast þúsundur nafna við, aðallega vegna hungursneyðar, áður en mánuðinn er á enda.“
Kristinn, eins og Julian Assange, minnir á mikilvægi þess að við munum að hver og einn einstaklingur skipti máli, og þá líka við sjálf í okkar stuðningi eða afskiptaleysi.
,,Þó að skipuleggjendur kvikmyndahátíðarinnar hér í Cannes hafi reynt að hindra eða draga úr pólitískri tjáningu á hátíðinni er útilokað að þagga niður í góðu fólki sem horfir upp á þjóðarmorð, fjöldaslátranir og yfirvofandi hungurdauða þúsunda á næstu dögum. Margir hafa látið í sér heyra. Þögnin er ekki valkostur.
Talan fer að nálgast jafngildi þess að öllum leikskólabörnum í Reykjavík sé slátrað.
Það verða allir að leggjast á eitt. Litlu börnin á Gaza eru okkar börn.
Og Kristinn Hrafnsson endar sína færslu á kröfunni: ,,Stöðvið morðin. Stöðvið Ísrael.“