Eiga bandarískar kristnar hvítar yfirburðahyggjukenningar um siðmenningarlega útrýmingu erindi við Íslendinga?

Meðal þess sem við ræddum í Víkuskammti í gær var innflutningur til Íslands á bandarískum kenningum kristinnar hvítrar yfirburðarhyggju um siðmenningarlega útrýmingu, eins og það er kallað í þjóðaröryggisstefnu Trump-stjórnarinnar. Það er erfitt að sjá menningarlegar forsendur fyrir þessum innflutningi, eins og sést vel á þessu grafi þar sem samsetning landsmanna á Íslandi og í Bandaríkjunum er borin saman, samkvæmt þeirri flokkun sem nota á í Bandaríkjunum í næsta manntali 2030.

Kenningar kristinnar hvítrar yfirburðarhyggju um siðmenningarlega útrýmingu byggir á ótta við þau tímamót þegar (og ef) hvítir verða ekki meirihluti íbúa í Bandaríkjunum. Og sá ótti stýrir stefnu Trump-stjórnarinnar sem vill loka landamærunum, stöðva alla komu innflytjenda til landsins (nema auðugs fólks sem borgar milljón dollara fyrir dvalarleyfi og hvítra manna frá Suður-Afríku), siga þjóðvarðliðinu á innflytjendur og brottvísa fólki sem ekki er hvítt á hörund, o.s.frv. Um daginn sagðist Trump vilja vísa öllum úr landi sem komið hefðu frá Sómalíu með þeim rökum að þetta væri ónýtt fólk.

Það er með ólíkindum að þessar kenningar séu nú orðin hluti af umræðu Íslendinga um framtíð samfélagsins. Hér eru 97% landsmanna hvítir, hér er vart til evangelísk kirkja sem boðar heimsendi með sama hætti og margar kirkjur vestanhafs; um skyldu sannkristinna til að skipa sér í lið í úrslitaorrustum góðs og ills. Og hér hefur aðskilnaðarstefna kynþátta ekki verið hluti af samfélaginu og pólitískri umræðu öldum saman, eins og í Bandaríkjunum. Samt er þessi andstyggilega þvæla borin hér upp í umræðunni, meira að segja úr pontu Alþingis. Það er náttúrlega skýrasta dæmið um hættuna af siðmenningarlega útrýmingu, þegar Íslendingar heilaþvo sjálfan sig á Youtube af sturluðum og hatursfullum dellukenningum innan úr helsjúku samfélagi, sem er nánast eins ólíkt því íslenska og hugsast getur.

Á Íslandi er lítil hefð fyrir því að keyra samfélagsumræðuna áfram af hatri og illvilja, eins og Donald Trump og fylgisveinar gera. Trump byggir á áratuga, í raun aldagamalli hefð úr ofbeldisfullri pólitík Bandaríkjanna, sækir orðfæri sitt til Klu Klux Klan og aðskilnaðarsinna, til kommúnistaofsókna McCarthyismans og til grimmrar andstöðu við frelsisbaráttu kvenna, samkynhneigðra og annarra hópa. Íslendingar eiga ekki þessa hefð ofbeldis og haturs. Hér hefur verið litið á það sem sameiginlegt markmið okkar að byggja upp gott samfélag, verið litið á það sem sameiginlegt afrek okkar að reisa samfélagið upp úr fátækt til bjargálna og síðar auðs; Ísland er eitt allra auðugasta samfélag heims. Þessi samstaða gaf eftir á nýfrjálshyggjuárunum þegar ójöfnuður jókst og hugmyndir um mannamun grasseruðu og kannski er það ástæða þess að ungir menn, sem komust til vits og ára á nýfrjálshyggjuárunum, heillist af dónaskap, illgirni, fordómum og mannhatri Trump og félaga. Kannski finnst þessum mönnum Elon Musk töff þegar hann segir að samkennd sé skaðleg og brjóti niður samfélög. Líklega vill hann að látum samkeppni, ágirnd og græðgi leiða okkur áfram.

En ef ég má nota orðfæri úr hugmyndaheim Trump, Musk og Snorra Mássonar þá hvílir svona rugl ekki í sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar né á íslenskum samfélagsskilningi. Þetta er því ó-íslensk hugsun, annarlegt aðskotadýr í íslenskri þjóðmenningu. Það er sem fámennur þröngur hópur á jaðri samfélagsins vilji kollvarpa íslenskri hugsun og samfélagi með innleiðingu siðferðislögmála sem eru framandi í íslensku samhengi, mun grafa undan íslenskri menningu ef þau ná að skjóta rótum. Íslendingar öðluðust sjálfstæði með því að stofna kaupfélög til að komast undan okri danskra kaupmanna, með því að vinna þorskastríð gegn erlendum þjóðum og með því að byggja upp rafmagns- og hitaveitur í félagslegri eign. Svo dæmi séu tekin. Íslendingar innleiddu réttlæti með opinberri heilbrigðisþjónustu og almennri skólaskyldu, með sterkri verkalýðshreyfingu sem gætti hagsmuna fjöldans gegn hinum fáu, með sterkum friðarvilja og samlíðan með þeim sem eru kúgaðir og hrjáðir og með því að rækta með sér sterka samkennd og samstöðu. Auðvitað er Ísland ekki fullkomið samfélag, en það sem er gott í því er sannarlega betri grunnur undir góða framtíð en sú sturlun sem verið er að reyna að flytja hingað inn frá fallandi samfélögum Bandaríkjanna, þar sem lýðræðið er í reynd að falla, þar sem auðkýfingar drottna yfir stjórnmálum og fjölmiðlum, þar sem grafið er undan frelsi háskóla, þar sem verkalýðsfélög eru brotin niður og þar sem verið er að kynda undir hatri og illgirni. Þar sem samfélagið virðist vera á barmi borgarastríðs. Hverskyns hálfvitum dettur í hug að flytja hingað inn glæðurnar sem loga undir pottunum í ofbeldisfullri og ruddalegri samfélagsumræðu í Bandaríkjunum í dag?

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí