Framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, Linda Dröfn Gunnarsdóttir, segir að erlendar konur sem leiti til Kvennaathvarfsins fái oft rangar upplýsingar um rétt sinn af hálfu íslenskra ofbeldismanna þegar þær reyni að losna undan þeim. Ofbeldismenn beiti heilaþvotti, einangri konurnar, misnoti rafræn skilríki þeirra, elti þær með búnaði og reyni að hafa upp á þeim.
Einnig sé til það sem Linda kallar „stofnanaofbeldi“ þegar konur stíga út úr ofbeldi í nánu sambandi og leita til Kvennaathvarfsins. Frí lögfræðiaðstoð sem áður var boðið upp á sé ekki lengur í boði. Hjá sýslumanni sé ekki boðið upp á túlkaþjónustu og fleira mætti nefna.
„Ofan á þetta allt hefur bæst þessi harka gagnvart fólki af erlendum uppruna,“ segir Linda, en vaxandi útlendingaandúð var kveikja viðtalsins við Björn Þorláks við Rauða borðið á Samstöðinni í gærkvöld.
Mörg dæmi eru um að úkraínskar konur hafi komið hingað einar til lands í töluverðum mæli eftir innrás Rússa og vilja öðlast sjálfstæði sem fyrst. Þær komi sér út á vinnumarkað og óski þess einskis fremur en að lifa venjulegu lífi. En sumar þeirra hafi verið misnotaðar af hálfu íslenskra karla er kemur að nánum samböndum.
Linda segir að sumar sögur úkraínsku kvenna endi ekki vel þegat konur sem flýja stríðsátök leita skjóls hér á land. Hún játar þeirri spurningu dagskrárgerðarmanns hvort stundum mæti erlendum konum í vanda nýtt helvíti hér á landi.