Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, skrifaði:
„Nú er dauðafæri!
Ég hlakka til að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í borginni í vor. Við höfum ítrekað mælst langstærsti flokkurinn í borgarstjórn, skynjum mikinn meðbyr og ljóst að borgarbúar kalla eftir breytingum.
Framundan eru spennandi mánuðir og mikilvægar kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkur landsins og sækir styrk sinn ekki síst á sveitarstjórnarstigið. Við erum á mikilli siglingu um land allt og erum full tilhlökkunar að taka samtalið við kjósendur um þeirra nærumhverfi og daglega líf.
Brýnustu verkefnin í Reykjavík eru hagræðing í rekstri borgarinnar, að draga úr umferðartöfum, stórauka lóðaframboð og lækka skatta. Huga betur að barnafólki, leysa leikskólavandann og hefja stórsókn í skólamálum. Við þurfum að koma höfuðborginni aftur í forystu.
Við sjálfstæðismenn göngum sameinuð til kosninga og munum stilla upp sigurstranglegum lista í borginni.
Ég er klár í verkefnið og hlakka til að vinna með ykkur öllum að sigri í vor.“