Segir enga framtíðarsýn í Reykjavík

Guðlaugur Þór Þórðarson skrifaði:

„Ég hef á undanförnum vikum fundið mikinn stuðning og hvatningu til þess að gefa kost á mér til þess að leiða Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík í komandi borgarstjórnarkosningum. Í tæpa þrjá áratugi hef ég unnið að hagsmunamálum höfuðborgarbúa, fyrst sem borgarstjórnarfulltrúi en síðar sem þingmaður Reykvíkinga. Við blasir það verkefni að reisa Reykjavík úr þeim rústum sem óstjórn vinstrimeirihluta síðustu ára skilur eftir sig.

Það er sama hvert litið er við stjórn borgarinnar. Framtíðarsýnin er engin. Fjármálin eru í rjúkandi rúst, í samgöngumálum er mest kapp á að koma í veg fyrir að fólk komist leiðar sinnar, lögð áhersla á fullkomlega óraunhæfa Borgarlínu, þrengt er að fólki og fyrirtækjum með flóknu og dýru regluverki, ofurþéttingarstefnan er fyrir löngu komin á endastöð og útþenslan í efstu lögum borgarinnar er það eina sem er á einhvers konar mælanlegri uppleið, svo fátt eitt sé nefnt.

Þessu þarf að breyta og um það snúast kosningarnar í vor. Mestu máli skiptir að tryggja að nauðsynlegar breytingar verði á stjórn borgarinnar og þær breytingar verða ekki án þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi sterkt umboð frá Reykvíkingum til að stýra málum til betri vegar.

Ég hef mikinn metnað fyrir hönd Reykvíkinga og vil leggja allt mitt af mörkum í þessu mikilvæga verkefni. Þess vegna hef ég velt því alvarlega fyrir mér, eftir mikla hvatningu og fjölda áskorana, að gefa kost á mér til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum.

Að vandlega íhuguðu máli hef ég komist að þeirri niðurstöðu að þátttaka mín í prófkjörsbaráttu um leiðtogasæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík muni kalla fram þá flokkadrætti sem verið hafa flokknum okkar erfiðir á síðustu árum. Þrátt fyrir þær áskoranir sem ég hef fengið á síðustu vikum og þrátt fyrir þann mikla stuðning sem ég hef fundið, þá hefur sú skoðun mín ekki breyst – skoðun sem ég lýsti í aðdraganda landsfundar Sjálfstæðisflokksins í mars síðastliðnum þegar mögulegt framboð mitt til formanns bar á góma – að ég þyrfti að leggja mitt af mörkum til að draga úr þessum flokkadráttum.

Slíkir flokkadrættir nú, þegar á brattan er að sækja í landsmálum en sóknarfæri eru á því að fella vinstrimeirihlutann í Reykjavík, eru ekki það sem Sjálfstæðisflokkurinn þarf á að halda. Ég trúi því og treysti að um þetta getum við sjálfstæðismenn í Reykjavík staðið saman, hvar í fylkingu sem menn telja sig standa.

Margt bendir til þess að Reykvíkingar séu búnir að fá sig fullsadda af óstjórn vinstrimeirihlutans í Reykjavík og að sóknarfæri séu til staðar fyrir Sjálfstæðisflokkinn að taka á ný við forystu í borginni. Til þess þurfum við sjálfstæðismenn að ganga samhentir til verka og fylkja liði að baki forystu flokksins í höfuðborginni.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí