12.700 starfsmenn bandarískra bílaverksmiðja hófu verkfall snemma á föstudag, eftir að slitnaði upp úr samningaviðræðum milli stéttarfélags þeirra og stóru bandarísku bílaframleiðendanna þriggja. Í ræðu sem Joe Biden Bandaríkjaforseti flutti samdægurs, frá Hvíta húsinu, lýsti hann yfir stuðningi við kröfur stéttarfélagsins United Auto Workers (UAW) um launahækkanir, lofaði starfsemi stéttarfélaga, sem hann sagði leika lykilþátt í bandaríska hagkerfinu og við að efla miðstétt landsins, og sagði verkafólk innan bílaiðnaðarins ekki hafa fengið sanngjarnan hlut af methagnaði fyrirtækjanna undanliðin ár.
Gegn þremur bílarisum í einu
Í 88 ára sögu UAW hefur það aldrei áður hafið verkfall gagnvart öllum þremur aðilunum í einu, sem er nú raunin: starfsmenn lögðu niður störf í verksmiðju General Motors (GM) í Missouri, verksmiðju Ford í nágrenni Detroit-borgar í Michigan og verksmiðju Stellantis Jeep (áður Fiat Chrysler) í Ohio-fylki.
Fjögurra ára samningar við fyrirtækin öll runnu út á miðnætti aðfaranótt föstudags. Shawn Fain, formaður UAW, lýsti því yfir í streymi á Facebook að aðgerðin væri söguleg. „Þetta er stundin sem skilgreinir okkar kynslóð,“ sagði hann. „Peningarnir eru hérna, málstaðurinn er réttmætur, heimurinn fylgist með og UAW er tilbúið að standa upp.“
Fain gerði þá grein fyrir áætlun félagsins um „uppistands“-verkföll, sem er ætlað að ná höggi á fyrirtækin án þess að lýja stéttarfélagið um of eða tæma verkfallssjóði þess með allsherjarverkfalli. „Þessi áætlun mun halda fyrirtækjunum á tánum. Hún veitir samningsnefndum okkar hámarks bolmagn og sveigjanleika í viðræðum og ef við þurfum að láta kné fylgja kviði gerum við það,“ sagði Fain.
Stéttarfélagið telur 146.000 meðlimi innan fyrirtækjanna þriggja. Það býr að 845 milljón dala verkfallssjóði, sem jafngildir um 115 milljörðum króna. Úr sjóðnum greiðir félagið 500 dali á viku til starfsfólks í verkfalli. Leggðu allir meðlimir félagsins niður störf í einu myndi sjóðurinn því nægja til um þriggja mánaða aðgerðar.
Krefjast 36% hækkana og 32 stunda vinnuviku
Stéttarfélagið hefur ekki fallist á að endurnýja samning undanliðinna fjögurra ára heldur krefst nýs samnings um umtalsverðar launahækkanir, meðal annars til að vega á móti verðbólgu. Samkvæmt frétt spænska miðilsins El País um málið hljóða kröfurnar upp á 36 prósenta launahækkanir yfir næstu fjögur ár, verðtryggingar launa, 32 stunda vinnuviku og breytinga á fyrirkomulagi greiðsla í og úr lífeyrissjóðum. Fréttavefur Greenwhich Time í Connecticut bætir því við að brýnasta krafan sé þó ef til vill sú að stéttarfélaginu verði veitt umboð til að semja einnig fyrir hönd starfsfólks við nýjar rafhlöðuverksmiðjur bílaframleiðendanna, nú þegar orkuskipti standa yfir í bandarískum bílaiðnaði eins og víðar.
GM og Ford hafa boðið 20 prósenta launahækkanir og Stellantis Jeep 17,5 prósent. Fain, formaður UAW, sagði seint á föstudag að enn hefðu fyrirtækin ekki komið til móts við 80 prósent af kröfum stéttarfélagsins.
Biden-stjórnin vill liðka fyrir samningum
Margir taka undir kröfur stéttarfélagsins, ekki síst í ljósi þess að fyrirtækinu hafa nýverið skilað miklum hagnaði og launað forstjórum sínum ríkulega. Joe Biden Bandaríkjaforseti er þar á meðal, eins og áður var nefnt. Á föstudag, sama dag og aðgerðirnar hófust, kallaði hann eftir því í ræðu frá Hvíta húsinu að aðilar vinnudeilunnar komist að „win-win“ samkomulagi, eða samkomulagi sem allir hagnist á. „Undanliðinn áratug,“ sagði hann í ræðunni, „hafa bílaframleiðendur slegið met í hagnaði, þar á meðal allra síðustu ár, vegna framúrskarandi hæfni og fórnfýsi verkafólks innan UAW. Þessum met-hagnaði hefur að mínu mati ekki verið deilt af sanngirni með verkafólkinu.“
Biden tilkynnti um leið að hann myndi senda Julie Su, settan vinnumarkaðsráðherra, og Gene Sperling, ráðgjafa Hvíta hússins, til Detroit til að stuðla að því að aðilar deilunnar nái saman. Þessi aðkoma Bidens og ríkisstjórnarinnar að deilunni þykir til marks um hversu mikið er í húfi, enda hefur framleiðsla vinsælla bílategunda þegar tafist af völdum aðgerðanna, að sögn Al-Jazeera.
„Þau gætu tvöfaldað launahækkanirnar án þess að hækka verðið á bílunum og samt staðið eftir með milljónahagnað,“ sagði Fain. „Við erum ekki vandinn. Græðgi stórfyrirtækja er vandinn.“