„Fyrirtæki eins og Iss og Hreint buðu mér að halda húsunum hreinum fyrir pening sem ég sá ekki að dygði til að þrífa þau almennilega þótt allir sem ynnu verkið væru á lægstu töxtum. Þetta var óneitanlega freistandi.“
Þetta rifjar Atli heimspekingur og prófessor á Menntavísindasviði HÍ, upp á Facebook nú í dag, fimmtudag, frá því er hann var skólameistari við Fjölbrautaskóla Vesturlands. Hann sagði þetta hafa rifjast upp fyrir sér þegar hann las fréttir dagsins um vond kjör ræstingafólks annars vegar, og heyrði frétt um uppsagnir fólks sem ræstir elliheimili í Hveragerði. „Fylgdi sögu,“ sagði Atli, „að „útvista“ ætti störfunum.“
Atli segir að á þessum tíma hafi stjórnvöld viljað spara mjög og hagræða, „enda kannski von því ríkið var illa statt eftir bankakreppuna sem skall á 2008.“ Þá hafi flest útgjöld skólans verið föst og óhagganleg „en meðal þess sem var löglegt að spara var laun fyrir þrif á húsnæði.“ Þar komu til sögunnar fyrrnefnd fyrirtæki, sem virtust bjóða ómögulega lága taxta.
Spurning um tjón á húsnæði
„Mig grunar að þessi fyrirtæki hefðu látið starfsfólk renna með hraði yfir gólf,“ skrifar Atli, „tæma ruslafötur og hlaupa svo í hendingskasti í næstu stofnun eða fyrirtæki. Það hefði varla verið þrifið á bak við húsgögn eða inn í króka og skot, hvað þá fylgst með ástandi á þeim hlutum húsanna þar sem umferð var lítil.“
„Síðan tekið var í stórum stíl að „útvista“ störfum þeirra sem passa upp á að húsnæði sé hreint og í lagi“ skrifar Atli, „hefur meira og meira verið sagt frá því í fréttum að byggingar skóla og fleiri stofnana og fyrirtækja séu stórskemmdar eða jafnvel ónýtar vegna myglu. Mér skilst að kostnaður vegna þessa sé gríðarlega mikill.“
Þá segist Atli velta fyrir sér hvort „þarna sé samband á milli. Eru menn að spara eyrinn og kasta krónunni þegar dregið er úr launagreiðslum fyrir ræstingar og aðra umhirðu húsnæðis? Er ef til vill ódýrara þegar allt er talið að hafa fólk í fullri vinnu við þetta og búa því skapleg kjör?“
Rannsókn sýnir tjón á manneskjum
Hvort sem lélegra starfsumhverfi og nöturleg kjör fólks sem starfar við ræstingar hefur áhrif á húsnæðið sjálft eða ekki, er ljóst á þeirri rannsókn sem Varða – Rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins birti í gær, miðvikudag, að með útvistun þessara starfa hefur vissulega verið unnið mikið tjón. Rannsóknin leiðir í ljós tjón sem hefur að miklu leyti verið ósýnilegt til þessa, það er að segja öðrum en þeim sem verða fyrir því, starfsfólkinu sjálfu.
Um leið gerir rannsóknin ljóst að hvaða útgjöld sem fyrirtæki og stofnanir hafa sparað með þátttöku í þeirri þróun hafa þau þannig varpað frá sér á herðar láglaunafólks: yfir 20 prósent fólks sem starfar við ræstingar segir líkamlega heilsu sína slæma, eða þriðjungi fleiri en fólk sem fæst við önnur störf innan vébanda ASÍ og BSRB. Það er aðeins einn þeirra mælikvarða sem við á: eins og segir í tilkynningu Vörðu er staða þeirra sem starfa við ræstingar „verri en þeirra sem eru í öðrum störfum á öllum mælikvörðum.“
Ef útvistun er leið til að spara eyrinn en kasta krónunni þá er það krónum starfsfólksins sem er kastað, samkvæmt rannsókn Vörðu. Öðrum fremur eru það innflytjendur og konur sem verða fyrir því tjóni, eins og einnig kom þar fram. Þeim stjórnvöldum og stjórnendum sem láta það ekki trufla sig gæti þó brugðið ef stefnan skyldi að auki skaða húsnæðið sem á í hlut.