Nestlé, Ferrero, Pepsi, Savencia, Bonduelle, Mondelez og Lactalis eru meðal þeirra vestrænu stórfyrirtækja sem hafa haldið áfram starfsemi í Rússlandi þrátt fyrir innrás Rússa í Úkraínu.
„Afstaða okkar hefur ekki breyst. Við höfum engan áhuga á að hverfa frá Rússlandi. Við virðum alþjóðlegar reglur. Við höldum afstöðu okkar af því að við höfum langtíma-sýn á viðskipti okkar,“ sagði Xavier Unkovic, nýr forstjóri matvælaframleiðandans Bonduelle, síðastliðinn mánudag. Fáir stjórnendur hafa tjáð sig með jafn afdráttarlausum hætti um sama efni, en sýna þó sömu afstöðu í verki, segir í umfjöllun sem birtist í Le Monde á laugardag.
Andspænis þeirri áskorun sem innrásin í Úkraínu fól í sér til þessara fyrirtækja, um hvort þau ættu að slíta tengslin við Rússland eða halda viðskiptum sínum þar til streitu, virðast matvælafyrirtæki hafa tekið annan pól í hæðina en mörg önnur, og réttlætt það með þörfinni á að íbúar Rússlands nærist eins og annað fólk, ásamt ábyrgð gagnvart starfsfólki sínu.
Ekki við hæfi að hagnast, segir stjórnarformaður
Stjórnarformaður Bonduelle, Christophe Bonduelle, segir að ágóði af viðskiptum fyrirtækisins í Rússlandi muni allur renna til enduruppbyggingar í Úkraínu. „Það er ekki við hæfi að hagnast á þessum átakatímum,“ lét hann hafa eftir sér í því samhengi.
Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, gagnrýndi Nestlé fyrir starfsemi fyrirtækisins í Rússlandi strax í upphafi stríðsins, á síðasta ári. Þetta stærsta matvælafyrirtæki heims brást á þeim tíma við með því að segja að starfsemi þess í Rússlandi myndi fyrst og fremst miðast við „að veita nauðsynleg matvæli, á við barnamat og matvæli fyrir sjúkrahús, en ekki að skila hagnaði.“ Fyrirtækið myndi þannig hætta sölu á súkkulaðinu KitKat, til að mynda, og Nesquik, því sem á íslensku kallast kakómalt.
„Við gerum ekki ráð fyrir að ná hagnaði í landinu eða greiða nokkra tengda skatta í Rússlandi um fyrirsjáanlega framtíð,“ kom fram í tilkynningu fyrirtækisins. „Ef einhver ágóði verður, þá verður hann að öllu leyti gefinn til mannúðarstarfs,“ sagði þar einnig. Eftir sem áður starfa enn sex verksmiðjur fyrirtækisins í Rússlandi, samkvæmt ársskýrslu. Þær framleiða, að sögn Le Monde, mjólkurvörur, sælgæti og gæludýrafóður. Í ársskýrslunni kemur ekkert fram um afdrif hagnaðarins af þessum rekstri.
Útflutningur á vodka stöðvaður með sniðgöngu
Yfirlýsingar annarra fyrirtækja stangast bersýnilega á við athafnir þeirra. Bandarískja fyrirtækjasamstæðan PespiCo lýsti því yfir við upphaf stríðsins að hún myndi stöðva sölu gosdrykkja í landinu. Það hefur fyrirtækið einfaldlega ekki gert, og hefur velta fyrirtækisins í Rússlandi aukist frá 2021 til 2022, úr 4 prósent af heildarsölu þess í 5 prósent.
Sænski vodkaframlaiðandinn Absolut Company er í dag í eigu franska áfengisframleiðandans Pernod Ricard. Síðasta vor hófst herferð í Svíþjóð fyrir því að sniðganga vörur fyrirtækisins, og þá ekki síst vodkað sjálft, ef það léti ekki af starfsemi sinni í Rússlandi. Herferðin skilaði þeim árangri að fyrirtækið hét því að stöðva allan útflutning á áfengi til Rússlands. Fyrirtækið hefur þó varað við því að vörur þess, og annarra fyrirtækja í sömu stöðu, fáist oft áfram á svörtum markaði.