Átta stéttarfélög létu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í dag, mánudag, þar sem þau skora á lánastofnanir að veita Grindvíkingum fullt greiðsluhlé vegna næstu þrjá mánuði vegna náttúruhamfaranna sem á þeim dynja. „Í þeirri áskorun felst jafnframt að lánastofnanir falli frá vöxtum og verðbótum á tímabilinu,“ segir í tilkynningu félaganna.
Undir áskorunina skrifa: Efling stéttarfélag, MATVÍS, Rafiðnaðarsamband Íslands, Sjómanna og vélstjórafélag Grindavíkur, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðsfélagið Hlíf, VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna og VR stéttarfélag.
Tilkynningin í heild
„Áskorun til lánastofnana
Grindvíkingar takast nú á við einhverjar mestu náttúruhamfarir sem orðið hafa í byggð á Íslandi í hálfa öld. Fjögur þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín og búa við mikla óvissu um framtíð sína og fjárhagslega afkomu. Ljóst er að gífurlegar skemmdir hafa orðið á eignum í bænum og óvíst hvort eða hvenær Grindvíkingar geta snúið aftur.
Undirrituð samtök launafólks skora á lánastofnanir að veita Grindvíkingum fullt greiðsluhlé næstu þrjá mánuði vegna þeirra hörmunga sem á þeim dynja. Í þeirri áskorun felst jafnframt að lánastofnanir falli frá vöxtum og verðbótum á tímabilinu.
Mikilvægt er að Grindvíkingar fái fjárhagslegt svigrúm til að takast á við þau áföll sem þeir hafa orðið fyrir og þann nýja veruleika sem við þeim blasir.
Efling-stéttarfélag
Matvæla og veitingafélag Íslands (MATVÍS)
Rafiðnaðarsamband Íslands
Sjómanna og vélstjórafélag Grindavíkur
Verkalýðsfélag Grindavíkur
Verkalýðsfélagið Hlíf
VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna
VR stéttarfélag“