Í dag, föstudag, gaf Utanríkisráðuneytið út tilkynningu um ráðherrafund NORDEFCO-ríkjanna í Stokkhólmi, en NORDEFCO er vettvangur varnarsamstarfs Norðurlandanna. Í fréttatilkynningunni er lauslega greint frá því að samstarf þeirra og Eystrasaltsríkja í öryggis- og varnarmálum fari „ört vaxandi“ og muni styrkjast enn frekar með inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í NATO. „Markvisst hefur verið unnið að því að tengja ríkin betur saman með æfingum og áætlanagerð,“ segir þar, og kemur engum á óvart sem fylgst hefur með vígvæðingu undanfarinna missera.
Tvennt vekur þó sérstaka athygli í fréttatilkynningunni: Í fyrsta lagi er sagt að Ísland hafi hafið „fulla þátttöku í hermálahlið norræna varnarsamstarfsins í lok síðasta árs“. Ekki er nánar tilgreint hvað felst í því. Þá segir um Bjarna Benediktsson, sem sótti fundinn fyrir Íslands hönd, að hann sé utanríkisráðherra sem „gegnir einnig hlutverki varnarmálaráðherra.“
Áður á hendi ókjörinna embættismanna
Þar sem ekkert eiginlegt varnarmálaráðuneyti er starfrækt á Íslandi mætti kannski gera ráð fyrir að þetta væri að jafnaði tilfellið, að utanríkisráðherra hafi varnarmál á sinni könnu. Hingað til hefur það þó ekki verið svo einfalt: Arnór Sigurjónsson, skrifstofustjóri öryggis-og varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins, sótti um árabil alla ráðherrafundi NORDEFCO, eins og aðrar hliðstæðar ráðstefnur, og var þá kynntur til sögunnar, á ensku, ýmist sem „Chief of Defence of Iceland“, eða jafnvel „Minister Arnor Sigurjonsson“.
Arnór hefur nú látið af störfum. Nýr skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofunnar er Jónas G. Allansson, sem sótti síðast fund varnarmálaráðherra NATO-ríkja í Brussel fyrir Íslands hönd í síðastliðnum október, og taldist þá ígildi varnarmálaráðherra.
NATO segir Bjarna varnarmálaráðherra
Andlit þessara embættismanna hafa fram til þessa prýtt þau kynningargögn NATO þar sem stillt er upp nöfnum og ljósmyndum af varnarmálaráðherrum aðildarríkjanna. Þegar að er gáð hefur sú uppstilling nú breyst á vef NATO, og fyrir Íslands hönd birtist þar, undir yfirskriftinni „NATO Ministers of Defence“, nafn og ljósmynd Bjarna Benediktssonar. Síðan var síðast uppfærð þann 18. nóvember sl., og má því gera ráð fyrir, þegar þetta er ritað, að Bjarni hafi nú gegnt embætti varnarmálaráðherra í að minnsta kosti sex daga.
Samantekið: Samkvæmt fréttatilkynningu Utanríkisráðuneytisins og vef NATO hefur hlutverk varnarmálaráðherra nú hafa færst úr höndum ókjörinna embættismanna á hendur ráðherra sjálfs. Bjarni Benediktsson er þar með, þegjandi og hljóðalaust, orðinn varnarmálaráðherra, að virðist fyrsti varnarmálaráðherra Íslands.