Dagur kemur og Dagur fer.
Sú er yfirskrift fundar sem Samfylkingin í Reykjavík hefur boðað til næsta mánudag.
Á fundinum gæti skýrst hvaða framtíðarplön Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar sér fyrir sér en samkvæmt málefnasamningi meirihlutaflokkanna lætur Dagur af embætti borgarstjóra um miðjan janúar. Hann var fyrst kjörinn borgarstjóri í október árið 2007 og hefur setið óslitið um langt skeið. Oddviti Framsóknarflokksins, Einar Þorsteinsson, tekur við embætti borgarstjóra á næstu vikum eftir stórsigur framsóknarmanna í síðustu sveitarstjórnarkosningum.
Í tilkynningu frá Samfylkingunni vegna fundarins næsta mánudag segir: „Fundarefnið er einfalt: Hvernig skilur Dagur við borgina og hvert er borgin okkar að fara?“
Þegar samið var um að deila borgarstjórnarstólnum milli flokkanna tveggja varð mikil umræða hvort Dagur hygðist að loknum borgarstjóraferli að slást í för með Kristrúnu Frostadóttur formanni Samfylkingarinnar, sem ráðherraefni í næstu ríkisstjórn.
Eftir að Guðmundur Árni Stefánsson, fyrrum ráðherra og oddviti samfylkingarfólks í Hafnarfirði, var kjörinn varaformaður Samfylkingarinnar á síðasta landsfundi, töldu sumir stjórnmálaskýrendur ólíklegra en ella að Dagur færi fram til Alþingis. Hann hefur hingað til ekki viljað svara spurningum um það með afgerandi hætti en Samstöðin hefur sent Degi fyrirspurn þar um.
Umræða hefur síðustu daga orðið á samfélagsmiðlum hvort Dagur hyggist bjóða sig fram til forseta eftir að Guðni Th. ákvað um áramótin að segja skilið við Bessastaði fyrir sumarið. Hvort Dagur upplýsir um þau mál á fundinum á mánudag kemur í ljós.