Alþjóðadómstóllinn kvað upp fyrsta úrskurð í dag í máli Suður Afríku gegn Ísrael fyrir brot á alþjóðalögum sem fallið geti undir þjóðarmorð. Dómstóllinn gefur Ísraelsmönnum einn mánuð til að gefa skýrslu um hvernig þeir hafi dregið úr árásum á óbreytta borgara en dómstóllinn viðurkenndi óhóflegar árásir á saklausa borgara og skort á mannúðaraðstoð.
Enn eiga sérfróðir lögmenn eftir að fara yfir ákveðna þætti til að úrskurða endanlega hvort um þjóðarmorð sé að ræða. Slíkt mun taka lengri tíma. Frá 7. október hafa 25.083 manns látið lífið vegna árása Ísraelshers á Gasa og 64.487 manns særst. Þá eru ótaldir þeir sem enn eru týndir undir rústum bygginga sem sprengjur hafa fallið á.
Utanríkisráðherra Palestínu segir í yfirlýsingu í kjölfar dómsins að ráðuneytið fagni skipunum dómstólsins og kallaði þær „mikilvæga áminningu um að ekkert ríki sé hafið yfir lögin”.
Háttsettur leiðtogi Hamas Sami Abu Zuhri hefur einnig kallað niðurstöðu dómstólsins í dag mikilvægt skref í því að einangra Ísrael og varpa ljósi á stríðsglæpi þeirra. Hann segir Hamas kalla eftir því að Ísraelsmenn verði þvingaðir til að fylgja fyrirmælum úrskurðarins í einu og öllu.
Yfirvöld í Suður Afríku segja niðurstöðuna afgerandi fyrir alþjóðlega réttarríkið. Einnig að úrskurðurinn marki mikilvæg tímamót í því að ná fram réttlæti fyrir palestínsku þjóðina.
Þá segjast þau ætla að halda áfram að starfa innan alþjóðlegra stofnana til að vernda réttindi Palestínumanna á Gasa.