Páll Einarsson jarðvísindamaður skrifaði grein í Morgunblaðið fyrir 30 árum sem í ljósi náttúruhamfara samtímans veltir upp stórum spurningum við þá ákvörðun að byggð í Grindavík hafi risið þar sem hún stendur.
Páll segir í grein sinni sem ber titilinn „Að lifa í landi náttúruhamfara“ að áföllin í Súðavík og á Flateyri sem þá voru á hvers manns vörum hafi verið hörmuleg. „Því miður bendir margt til þess að við eigum enn eftir að verða fyrir biturri reynslu af kæruleysislegri umgengni við náttúruöflin,“ skrifaði vísindamaðurinn.
Hann heldur áfram:
„Hvarvetna blasa dæmin við. Bæir og þorp hafa víða byggst upp undir bröttum hlíðum þar sem snjóflóðahætta er augljós. Á Húsavík er nær öll byggðin á sprungukerfi sem er upptakasvæði stórra jarðskjálfta. Skólum og sjúkrahúsi er þar valinn staður eins nálægt meginmisgenginu og hægt er. Á Selfossi hefur byggð þróast án tillits til sprungna og legu bæjarins á hættulegasta jarðskjálftasvæði landsins,“ skrifaði Páll fyrir 30 árum.
Sá hluti greinar hans sem varðar Suðurnes er þó mest sláandi í ljósi síðustu atburða.
„Í Grindavík byggja menn klofvega yfir þekktar sprungur án umhugsunar,“ skrifar Páll.
Þegar hraun rann yfir hús í Grindavík á dögunum bendir margt til að ráðist hafi verið í eina nýbygginguna sem þá fór undir hraun eftir að eldsumbrotin á Reykjanesskaga hófust fyrir fáum misserum.
Greinin veltir upp spurningum hvort Almannavarnir hafi litið undan hættunni í Grindavík síðustu misseri. Ef undan eru skilinn tíminn síðan í nóvember ræddu yfirvöld einkum jarðskjálfta sem ógn við Grindavík.