Páll Magnússon, fyrrum útvarpsstjóri og þingmaður, segir alls konar bruðl viðgangast í opinberum rekstri hér á landi.
Á facebook rifjar Páll upp að fyrir ári hefði hann spurt af hverju Seðlabankinn þyrfti fleiri en 300 starfsmenn. Ísfélag Vestmannaeyja – sem geri út 7 fiskiskip og rekur bolfiskvinnslu, uppsjávarvinnslu og fiskimjölsverksmiðjur á tveimur stöðum á landinu og býr til verðmæti upp á 17 milljarða árlega – þurfi bara 230 starfsmenn.
Páll segir að í seðlabanka Svíþjóðar vinni um 420 manns.
„Svíar eru 10, 6 milljónir þannig að í seðlabankanum þeirra vinnur 1 starfsmaður á hverja 25.000 íbúa. Í Seðlabanka Íslands vinnur 1 starfsmaður á hverja 1.250 íbúa. Hlutfallslega vinna sem sagt 20 sinnum fleiri starfsmenn í seðlabankanum á Íslandi en í Svíþjóð,“ segir Páll.
Til að jafna töluna hlutfallslega þyrfti að fækka á Íslandi úr 300 í 15.
Eða fjölga í Svíþjóð úr 420 í 8.400!
Páll er ekki eini sjálfstæðismaðurinn sem hefur sótt að útbólgnu bákni ríkiskerfisins á vakt Bjarna Benediktssonar sem fjármálaráðherra síðustu ár.
Þannig kom fram í umræðum á Alþingi í vikunni hjá Sigþrúði Ármann, varaþingkonu Sjálfstæðisflokksins, að fjölgun ríkisstarfa og óskilvirkni ríkisstarfsmanna hér á landi væri alræmd. Ríkisstarfsmenn hér á landi vermdu botninn í skilvirkni miðað við samanburðarríki.
Stjórnarráðið hefur bólgnað út sem nemur 30 prósentum að því er fram kom í umræðunum á Alþingi.