Nýliðinn febrúar var heitast febrúarmánuður síðan mælingar hófust, samkvæmt Loftslagsbreytingaskrifstofu Kópernikusarstofnunar Evrópusambandsins. Veturinn í Evrópu var sá næst hlýjasti síðan mælingar hófust. Síðustu níu mánuði hefur hitastig samfleytt mælst met hátt í heiminum. Þá hefur hitastig sjávar aldrei mælst hærra en í febrúar einnig. Hitastig á Íslandi mældist hins vegar töluvert lægra en að meðaltali.
Hitastig í heiminum mældist óvenjulega hátt allan fyrri hluta febrúarmánaðar, þar af mældist hitastig fjóra daga í röð að meðaltali tveimur gráðum hærra en fyrir iðnbyltingu. Að meðaltali var hitastig í febrúar 1,77 gráðum hærra en meðal hitastig á tímabilinu 1850 til 1900, fyrir iðnbyltingu, en miðað er við það tímabil í Parísar sáttmálanum.
Í Parísarsáttmálanum er gert ráð fyrir að halda þurfi hitastigi vel neðan við tveimur gráðum, og helst neðan við 1,5 gráðum, hærra en fyrir iðnbyltingu. Þessar háu hitatölur eru þó ekki til marks um það, enn sem komið er, að sáttmálinn sé brostinn þar eð hitastigshækkunin er ekki mæld í mánaðartölum heldur sem meðaltal yfir árafjöld. Engu að síður er staðan sú að Loftslagsbreytingaskrifstofan greindi frá í febrúar síðastliðnum að síðustu tólf mánuðir þar á undan hefðu verið fyrsta tólf mánaða tímabilið þar sem meðal hitastig á jörðinni hefði mælst yfir 1,5 gráðum hærra en fyrir iðnbyltingu. Hitastig febrúar gerir mánuðina nú þrettán talsins.
Hitastig hefur hækkað vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum, með brennslu jarðefnaeldsneytis fyrst og fremst. Loftslagsbreytingarnar hafa þá áhrif í þá átt að El Nino veðurfyrirbrigðið hefur færst í aukanna með þeim afleiðingum að hlýnar í Suður-Kyrrahafi, en það hefur áhrif til hækkunar hitastigs á heimsvísu.
Hækkandi hitastig hefur valdið hamfaraveðri víðsvegar, meðal annars flóðum og stormum, en einnig þurrkum og gróðureldum.
Hitastig á Íslandi var hins vegar undir meðaltali í febrúar, sem var kaldur og þakti snjór mestan hluta landsins meiri hluta mánaðarins. Þannig var meðalhiti í Reykjavík 1,4 stigum lægri en meðaltal áranna 1991 til 2020, og 1,8 stigum lægri en meðalhiti síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 2 stigum lægri en meðalhitinn 1991 til 2020 og 2,5 stigum lægri en síðustu tíu ár. Þá var einnig kalt í janúar, meðalhiti tveggja fyrstu mánaða ársins hefur ekki verið jafn lágur síðan árið 2002 í Reykjavík og á Akureyri raðast fyrstu tveir mánuðirnir í 90. sæti af 144 árum mældum.