Starfsfólk í belgískum fangelsum er í sólarhrings verkfallsaðgerð í dag, sem er hluti af sameiginlegum aðgerðum þriggja stéttarfélaga. Kröfur þeirra eru að fangelsin séu ekki ofsetin og að aðbúnaður fanga og starfsfólks sé viðunandi. Áætlað er að um 200 fangar þurfi að sofa á dýnum á gólfi vegna plássleysis, þar sem það vantar fangaklefa.
Stéttarfélögin benda á mikla fjölgun fanga leiði til tíðari líkamsárása gegn starfsfólki.
Í fangelsum Belgíu eru um það bil 12.000 fangar, sem er 1.300 fleiri en áætlað hafði verið.
Stéttarfélögin segja að lausnir ríkisstjórnarinnar séu ófullnægjandi og að þær hafi komið of seint. Á meðan verður starfsfólk að þola óviðunandi aðstæður og fangar eru látnir búa við ömurlegar kringumstæður.
„Ofþensla veldur því að fangelsi springa, með ómannúðlegum aðbúnaði fyrir fanga okkar,“ sagði talsmaður eins stéttarfélagsins.
Hann sagði að verkfallsvilji væri mjög mikill, einkum vegna tíðra árása á starfsfólk.
„Við þurfum að gera starfið meira aðlaðandi til að fá fleira starfsfólk inn í stofnanirnar, þar sem skortur á starfsfólki er einnig vandamál,“ sagði hann.
„Þessi skortur hefur í för með sér að veikindadagar eru sífellt fleiri og eru nú orðnir 600.000 dagar.“
Á sama tíma hefur Mannréttindavaktin (LDH) varað við því að sjúkdómar breiðist út í fangelsum, einkum lifrarbólga C.
Ekki njóta allir fangar sömu meðferðar við lifrarbólgu C, samkvæmt LDH, sem hefur fordæmt mismunun milli fanga sem afplána refsingu sína og þeirra sem eru í gæsluvarðhaldi. Síðari hópurinn fær ekki skimun og meðferðarþjónustu vegna sjúkdómsins.
Fangar eru um sjö sinnum líklegri til að vera smitaðri af lifrarbólgu C en almenningur, fangelsin eru sérstaklega áhættusöm fyrir smitun vegna lélegra hreinlætisaðstæðna, deilingar á búnaði á milli fanga og útbreiddrar notkunar fíkniefna.
„Samkvæmt þeirri heilsuverndarreglu sem Fangelsismálastofnun hefur ákveðið hafa einungis dæmdir fangar í reynd aðgang að skimunar- og meðferðarþjónustu og fólk í gæsluvarðhaldi á ekki rétt á henni,“ segja samtök LHD.
Í heilsuverndarreglunni er einnig kveðið á um að fangar „sem nota geðvirk efni“ skuli útilokaðir frá þessari meðferð „þótt engin læknisfræðileg rök séu fyrir því að skilyrða ávísun veirulyfjameðferðar við bindindi“.
LDH sagði að ástæðan sem gefin væri fyrir mismununinni væri fjárhagslegs eðlis, „þótt opinbera ástæðan sem gefin væri væri lengd afplánunar, sem ætti að vera nægileg til að hægt væri að taka meðferðina að fullu meðan á fangelsisvistinni stæði“.