Hundruð Kúbverja mótmæltu í gær á götum Santiago de Cuba, næststærstu borgar Kúbu, vegna viðvarandi matarskorts og rafmagnsleysis. Viðlíka stór mótmæli hafa ekki orðið á Kúbu síðan árið 2021. Þá mótmælti fólk einnig í höfuðborginni Havana, Bayamo og fleiri borgum.
Rafmagnsleysi hefur plagað eyjuna síðan í byrjun mánaðarins og er ástæðan sögð viðhaldsvinna við stærsta raforkuver landsins. Staðan mun enn hafa versnað um liðna helgi vegna skorts é elsneyti á Kúbu, sem notað hefur verið til raforkuframleiðslu. Sum svæði á eyjunni hafa verið án rafmagns í allt upp í fjórtán tíma á sólarhring, þar á meðal Santiago.
Samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar var rafmagni komið á í Santiago seinnipartinn á sunnudag, eftir mótmælin, auk þess sem tvö vörubílshlöss af hrísgrjónum voru send til borgarinnar.
Forseti Kúbu, Miguel Diaz-Canel, sagði í gær á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, að óvinir byltingarinnar reyndu að notfæra sér ástandið. Það væru „hryðjuverkamenn með aðsetur í Bandaríkjunum, sem við höfum ítrekað fordæmt, sem hvetja til aðgerða sem ógna innra öryggi landsins,“ skrifaði Diaz-Canel. Hann varaði við því að gripið yrði til harðra aðgerða gegn slíkum gjörðum og hvatti til friðsamra skoðanaskipta um þær áskoranir sem Kúba stæði frammi fyrir í ljósi viðskiptabanns Bandaríkjanna á landið.
Eins og Samstöðin greindi frá í lok síðasta mánaðar óskaði ríkisstjórn Kúbu þá eftir aðstoð Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna. Er það í fyrsta skipti sem það gerist og sýnir hversu mikill matarskortur er orðinn í landinu. Beiðni barst um að útveguð yrði þurrmjólk handa börnum undir sjö ára aldri og hefur Matvælaáætlunin þegar brugðist við beiðninni.