Ríkisstjórn Kúbu hefur óskað eftir aðstoð Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna. Er það í fyrsta skipti sem það gerist og sýnir hversu mikill matarskortur er orðinn í landinu. Beiðni barst um að útveguð yrði þurrmjólk handa börnum undir sjö ára aldri.
Efnahagslega á Kúba í talsverðum erfiðleikum, og er yfirstandandi efnahagskreppa talin sú versta í þrjá áratugi. Auk mjólkurskorts fer eldsneyti þverrandi á eyjunni, sem og lyf. Forsvarsmenn Matvælaáætlunarinnar staðfestu við spænsku fréttastofuna Efe að beiðni hefði borist um aðstoð við að framhalda dreifingu á einum lítra á af mjólk á mánuði handa hverju barni undir sjö ára aldri. Matvælaáætlunin hefur þegar hafist handa við að senda þurrmjólk til Kúbu.
Þurrmjólk og ýmsar aðrar matvörur, sem teljast til nauðsynja, fá Kúbverjar á niðurgreiddu verði með því að nota skömmtunarmiða. Vöruskortur er hins vegar landlægur, sem og tafir á afhendingu á matvöru.
Skömmtunarkerfið hefur verið við lýði frá því að Fidel Castro kom því á árið 1962, sem viðbragði við viðskiptabanni Bandaríkjanna á eyjuna. Stjórnvöld á Kúbu kenna viðvarandi viðskiptabanni um efnahagsörðugleika landsins, á meðan gagnrýnendur þeirra segja að óstjórn sé um að kenna.
Á síðasta ári viðurkenndi varaforsetinn Jorge Luis Tapia Fonseca að áætlanir um að sjálfbærari Kúbu hefðu ekki staðist. Kenndi hann kúbönskum verkalýð um, hann skorti framleiðni menningu, eins og Fonseca orðaði það.