Eitt er það sem nóg er til af fyrir norðan þessa dagana, það er skíðasnjórinn í Hlíðarfjalli.
Aftur á móti hafa menningarlegar breytingar á skíðasvæði Akureyringa ekki farið vel í alla. Adolf Ingi Erlingsson, fyrrum landskunnur íþróttafréttamaður, segir að áfengisneysla sem nú er leyfð á skíðasvæðinu sé ómenning.
Í aðsendri grein á vefnum akureyri.net, segir Adolf Ingi, sem er brottfluttur Akureyringur, að hálf öld sé liðin síðan hann fór fyrst að renna sér í Híðarfjalli. Hann endurnýjaði kynni sín við norðlensku brekkurnar fyrir skemmstu.
„Nema hvað þegar við, eftir ríflega klukkutíma skíðun, ákváðum að hvíla okkur á pallinum við Strýtuna, brá okkur nokkuð þegar“ við sáum fjölda fólks sitja að áfengisdrykkju í hádeginu. Ýmist með bjór eða freyðivín í glösum. Þarna sat fólk með börnum sínum og jafnvel barnabörnum og teygaði mjöðinn af miklum móð. Þrír ungir menn virtust ætla að eiga langan laugardag, því þeir voru komnir í gírinn, höfðu hátt, reyktu og drukku hratt. Gutti, 10 til 12 ára, kom út úr skálanum með bjórglas í annarri hendi og vatnsglas í hinni, auðsjáanlega sendur til að sækja bjór fyrir einhvern. Maður hafði á tilfinningunni að maður væri mættur á barinn en ekki í fjallið, að viðbættum börnum,“ segir íþróttafréttamaðurinn fyrrverandi.
Hann telur að áfengiadrykkja eigi sinn stað og stund en skíðasvæðið sé ekki í þeim hópi.
„Löngum hefur verið talið að útivera og íþróttir séu lykilatriði í að koma í veg fyrir áfengisneyslu ungmenna. Viljum við senda þeim þau skilaboð að skíði og áfengi eigi samleið?“
Hann heldur áfram:
„Sú var tíðin að flestir voru með kakó og samlokur í nesti, en nú þykir það líklega ekki nógu fínt. Enga sáum við með slíkar veitingar, í staðinn sat fólk að sumbli. Einhverra vegna ákváðu rekstaraðilar í Hlíðarfjalli að selja áfengi og þar með að normalísera áfengisdrykkju í útivistarparadís.“
Adolf Ingi segir að ekki megi rugla saman „après ski“ í Ölpunum við sull í miðri skíðaeinkunn enda vísi „aprés“ til þess sem eigi sér stað eftir skíðaiðkun ekki á meðan á skíðamennsku stendur.
„Drykkja í fjallinu á að mínu mati ekkert skylt við menningu, heldur er ómenning. Sem betur fer hafa staðarhaldarar í Bláfjöllum ekki elt Akureyringa í þessari vitleysu og þar sitja fjölskyldur enn saman með kakóið sitt og samlokurnar.“
Sjá alla greinina á akureyri.net hér: Ómenning í fjallinu | akureyri.net