Á fimmtudag verður gert opinbert hverjir hljóta listamannalaun.
Þótt allmargir Íslendingar fái úthlutað verktakagreiðslum sem nema frá þremur mánuðum og upp í heilt ár, „lúsarlaun undir 600.000 krónum,“ eins og einn listamaður orðar það við Samstöðina, eru þeir fleiri sem fá ekki neitt. Ávallt skapast á þessum árstíma umræða um hvernig staðið er að úthlutun og árið 2024 verður engin undantekning frá fyrri tímum.
Sagt hefur verið frá því að Elísabet Jökulsdóttir er meðal þeirra sem fá engin ritlaun. Hún segist ekki vita hvernig hún kemst af.
Annar höfundur sem fær ekki krónu frá ríkinu er Halldór Armand Ásgeirsson. Í viðtali við Jakob Bjarnar Grétarsson á Vísi lýsir Halldór þeirri skoðun sinni að klíkuskapur kunni að hafa nokkuð um það að segja hverjir fái listamannalaun og hverjir ekki. Hann óttast að núverandi úthlutunarfyrirkomulag muni að lokum ganga frá bókmenntunum dauðum, því rithöfundar verði óhjákvæmilega málpípur ríkjandi viðhorfa.
„Tjahh, til að vera í náðinni er svo auðvitað best að þekkja fólk og helst gagnrýnendur persónulega,“ segir hann. „Þetta er svona strúktúr sem viðheldur sjálfum sér. Ég get að minnsta kosti sagt þér það að ég þekki vel þekkta og mjög reynslumikla rithöfunda hér, sem eru miklu bölsýnni á þetta en ég, og líta bara svo á að þetta sé eins og allt annað á Íslandi – klíka að keppa við aðrar klíkur um að eiga öruggt aðgengi að peningum almennings,“ er meðal þess sem Halldór Armand segir í viðtalinu við Vísi sem lesa má í heild hér:https://www.visir.is/g/20242658732d/til-ad-fa-lista-manna-laun-tharftu-ad-vera-i-nadinni?fbclid=IwY2xjawG7uS1leHRuA2FlbQIxMQABHeeMBhC8KUQTkkDJu4CHGNZlygodJ_VFRQRpY7Od8W3u8HXvn32JJZgP9w_aem_uc7aFL8g7CWJTtzKFhXJ9A