Auðmaðurinn Haraldur Ingi Þorleifsson birti í gær tíst á Twitter þar sem hann segir, í stuttu máli, að sú staðreynd að Ísland sé ríkt land hafa lítið sem ekkert að gera með stjórnarfar hér á landi síðustu áratugi. Haraldur segir í tístinu, sem er á ensku og má lesa í heild sinni hér fyrir neðan, að Ísland sé ríkt fyrst og fremst þökk sé auðlindum, ferðamönnum og landfræðilegrar legu. Líkt og hann kemst að orði þá sé ríkidæmi Íslands ekki því að þakka hve góð við séum í því að vera land.
Ljóst er að tíst hans hefur vakið athygli um heim allan og til marks um það þá tala þeir sem deila tísti Haraldar ótal tungumál. En þar á meðal eru nokkrir íslenskir, en flesta mætti vel flokka sem hægrimenn. Þannig skrifar Sjálfstæðismaðurinn Ingvar Smári Birgisson, fyrrverandi aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar:
„Ísland er skv. öllum mælikvörðum eitt besta land í heimi til að búa í og það hefur lítið sem ekkert að gera með auðlindir okkar. Það er furðulega lítil fylgni milli auðlegðar og auðlinda. Helsta auðlind Íslands er fólkið sem býr hérna og hefur okkur tekist að virkja kraft þeirra.“
Hann er ekki eini Sjálfstæðismaðurinn og fyrrverandi aðstoðarmaður ráðherra sem hnýtir í pistil Haralds. Það gerir einnig Konráð S. Guðjónsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjarðar, sem skrifar:
„Náttúruauðlindir geta verið bölvun eða blessun – það er mannanna verk hvernig þær eru nýttar. Spyrið bara Kongó sem er moldríkt af auðlindum en fáu öðru, eða Singapúr sem á lítið af auðlindum en er moldríkt af öðru.“