Tugþúsundir mótmæltu í gærkvöldi á götum Tbilisi, höfuðborgar Georgíu, til að mótmæla fyrirhugaðri lagasetningu sem myndi skilgreina fjölda félagasamtaka í landinu sem „erlenda aðila“. Sú skilgreining myndi ná yfir samtökin sem um ræðir sökum þess að umrædd félög nytu fjárhagsstuðnings erlendis frá. Áhyggjur er af því að Georgía sé á leið inn í mestu pólitísku krísu í áratugi.
Ákvörðun georgísku ríkisstjórnarinnar um að leggja frumvarpið aftur fram, en það var fyrst kynnt á síðasta ári, gengur gegn vilja forseta landsins, stjórnarandstöðunnar, embættismannakerfisins og hefur verið harkalega gagnrýnd á alþjóðavettvangi. Gagnrýnendur frumvarpsins líkja því við svipaða lagasetningu í Rússlandi, sem óspart hefur verið notuð til að þagga niður í stjórnarandstæðingum þar í landi. Verði frumvarpið að lögum þurfa samtök og aðilar sem hljóta fjármögnun að einhverju leyti erlendis frá að skrá starfsemi sína hjá yfirvöldum, sem svo að þau séu “undir erlendum áhrifum”. Það á við um fjölmiðla einnig.
Frumvarpinu hefur verið mótmælt daglega síðustu daga á götum Tbilisi, þar sem mótmælendur ganga undir merkjunum „Já við Evrópu, nei við rússneskum lögum“. Fjöldinn tók hins vegar öllu fram í gær, þar sem yfir 20 þúsund manns flykktust út á göturnar, einkum ungt fólk og námsmenn.
Evrópuþingið kallaði í síðustu viku eftir að georgískir ráðamenn yrðu beittir refsiaðgerðum vegna málsins. Ekki er búist við að Framkvæmdastjórn ESB og Evrópuráðið muni beita þeim meðölum strax en talið er af ef georgíska ríkisstjórnin muni halda sínu striki verði brugðist þannig við.