Frá því árásarstríð Ísraela á Gaza hófst 7. október hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) skrásett 443 árásir á heilbrigðisstofnanir eða á heilbrigðisstarfsfólk á svæðinu. Alls hafa 723 látið lífið í árásunum og 924 manns hafa særst.
Þetta kemur fram í færslu sem WHO birti í morgun á X, áður Twitter. Þar segir að af árásunum hafi 101 verið á heibrigðisstofnanir og 106 á sjúkrabíla. Sautján af nítján sjúkrahúsum í Gazaborg og nágrenni hafa skemmst, og þar af eru sextán óstarfhæf. Þá hefur verið ráðist á heilsugæslustöðvar með þeim afleiðingum að 18 af 20 eru óstarfhæfar. Af öllum árásunum sem WHO hefur skrásett voru fast að 40 prósent gerðar á heilbrigðisstofnanir og starfsfólk í Gazaborg.
Á norðurhluta Gazastrandar hafa árásirnar valdið skemmdum á fimm af fimm sjúkrahúsum og eru þrjú þeirra óstarfhæf. Þá eru ellefu heilsugæslustöðvar af tólf óstarfhæfar.
Í Deir al-Balah borg og nágrenni, á miðri Gazaströndinni, hafa árásir valdið skemmdum á öllum þremur sjúkrahúsum á svæðinu og þar af er eitt óstarfhæft. Sextán af átján heilsugæslustöðvum eru óstarfhæfar.
Í Khan Younis borg hafa fimm af sex sjúkrahúsum skemmst og eru þau fimm öll óstarfhæf. Tólf af sextán heilsugæslustöðvum eru óstarfhæfar vegna skemmda eftir árásirnar.
Í Rafahborg er ástandið skást, en þar eru þó gríðarlegur fjöldi fólks samankominn, flóttafólk frá öðrum hlutum Gaza, og innviðir ráða ekki á nokkurn hátt við að þjónusta fólkið. Af þremur sjúkrahúsum borgarinnar hafa öll orðið fyrir skemmdum en eru þó enn starfhæf. Þrjár heilsugæslustöðvar af níu eru óstarfhæfar.