Kjósendur í Mexíkó gengu að kjörklefum í gær og líkt og Íslendingar kusu þeir sér kvenkyns forseta. Öllu sögulegra er það fyrir Mexíkó sem hefur aldrei kjörið konu áður til embættisins, en konur fengu ekki kosningarétt í Mexíkó fyrr en árið 1953.
Claudia Sheinbaum er 61 árs ára gömul og sigraði mótframbjóðendur sína með yfirburðum þar sem hún hlaut 58% atkvæða. Sheinbaum leiðir Morena-hreyfinguna, flokk sem komst fyrst til valda fyrir 6 árum síðan, þá undir persónulegri forystu Andrés Manuel López Obrador sem gegnt hefur embætti forseta síðustu 6 ár, en það er lengd eins kjörtímabils mexíkóskra forseta.
Morena-hreyfingin spratt upp úr mikilli og langvarandi óánægju með skynjaða spillingu og óreiðu í mexíkóskum stjórnmálum, þar sem meiri áhersla var lögð á skipulagðan hernað gegn glæpagengjum heldur en stuðning við eigin borgara.
Traust á yfirvöldum í Mexíkó rúmlega tvöfalt miðað við á Íslandi
Það sem Morena-hreyfingunni hefur tekist á ekki lengri tíma er meðal annars að þrefalda lágmarkslaun, stórauka bætur til aldraðra og annarra hópa sem höllum fæti standa í samfélaginu og dæla fjármunum í opinbera innviði. Fyrir vikið hefur hreyfingunni tekist að tvöfalda traust á yfirvöldum sem mælist nú rúmlega 60%, tvöfalt hærra en í Bandaríkjunum og rúmlega tvöfalt á við traust Íslendinga á Alþingi, sem mældist um 25% í fyrra.
Fyrir vikið hefur morðtíðni í Mexíkó fallið, þó glæpagengin í landinu valdi enn óskunda. Morena-hreyfingin virðist hafa tekið þann pól í hæðinni að vænlegra til árangurs í baráttunni við vargöld og áhrif skipulagðra glæpasamtaka, til langs tíma, sé að útrýma fátækt, í stað þess að standa í stríði í eigin landi.
Sundrung var helsta umræðuefni forsetakosninga Íslands
Höllu Tómasdóttur tókst listilega í forsetakosningunum að sameina ólíka hópa með sinni sýn á umbreytingar og að stuðla gegn sundrungu í íslensku samfélagi. Katrínu Jakobsdóttur, fráfarandi forsætisráðherra, var hafnað með aðeins um fjórðungsfylgi, minna fylgi jafnvel en ríkisstjórnarflokkarnir sem hún leiddi búa samtals yfir. Sú niðurstaða er í takt við afar lágt traust á pólitískum stofnunum á Íslandi, þar sem undantekningin er ávallt embætti forseta Íslands, en traust á forseta mældist í 73% á síðasta ári.
Miklum tíma var varið í kosningabaráttunni til forseta Íslands í umræðu um aukna skautun, leiðindi, sundrungu og skorti á samtali. Traust, samkennd og samhyggð skorti og Íslendingar upplifi sig í auknum mæli sem klofna þjóð.
Nú taka við stórir slagir á Alþingi þegar að þing kemur aftur saman stuttu fyrir sumarfrí sitt, um áframhaldandi sölu á Íslandsbanka, útlendingalög, frumvarp um lagareldi og umdeild húsaleigulög. Ekkert af þeim málum er líklegt til að minnka skautun, úlfúð eða togstreitu í íslensku samfélagi.
Ef draga mætti einhvern lærdóm af velgengni Sheinbaum og Morena-hreyfingarinnar í Mexíkó, þá væri það kannski sú lexía að alhliða einbeiting yfirvalda á að bæta kjör og hag hinna verst settu í samfélaginu eykur traust fólks á því að yfirvöld beri þeirra hag fyrir brjósti.