Strætó vænir notendur um umfangsmikið svindl með örorkufargjöld

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalista, gagnrýnir á Facebook síðu sinni undarlega samsæriskenningu Strætó bs. um meint umsvifamikið svindl með kaup og sölu á örorkufargjöldum á síðustu árum.

Sanna er þar að ræða umsögn Strætó við tillögu Flokks fólksins um sölu á afsláttarkortum til öryrkja. Sósíalistar hafi lagt til samskonar tillögu á síðasta ári, sem vísað hafi verið til Strætó bs. í janúar á síðasta ári. Tillagan hafi dagað þar uppi og ekkert heyrst frá Strætó síðan. „Ég hlakka til að segja já við þessari tillögu sem verður til afgreiðslu á fundi velferðarráðs á morgun þann 5. júní. Vonandi verður þetta samþykkt“, skrifar Sanna.

„Samkvæmt Strætó bs. voru farþegar að svindla með því að greiða ekki rétt fargjald. Klappið nýja greiðslukerfið átti að taka á þessu. Strætó bs. vill meina að það hafi tekist“, skrifar Sanna. 

Skjáskot úr umsögninni sem um ræðir:

Í umsögninni má sjá að Strætó telur „umfangsmikið svindl“ fyrir innleiðingu Klappsins vera ástæðu þess að kaupum á stökum farmiðum hafi fækkað nú eftir að Klappið hefur komið til sögunnar. Ekki er ljóst hvað Strætó hefur fyrir sér í þeirri samsæriskenningu, annað en að benda bara á það sem þeim finnst vera „sláandi“ tölur og bjóða fram þessa túlkun sína, sem þó er slegið fram sem staðreynd.

Sanna bendir á að „ef þú ert að selja færri staka miða til aldraðra og öryrkja gæti þá verið að þú sért vandamálið?“ Einnig að kannski megi finna eitthvað að kerfinu sem sé síður aðgengilegt, „kerfi þar sem þú þarft að sækja um afslátt rafrænt (og hafa til þess síma eða tölvu og net og tölvuþekkingu) eða gera þér sérferð lengst upp á Hestháls til þess að fá aðstoð við að virkja afsláttinn“.

Sanna færir þannig rök fyrir því að það gæti skýrt fækkun kaupa á stökum farmiðum, enda hafi á sama tíma verið mikil aukning í kaupum á tímabilskortum. Með öðrum orðum, að það gætu margvíslegar ástæður legið þar að baki, aðrar en samsæri og svindl. 

„Gæti verið að æ fleiri gefist upp á því að reyna að kaupa stakan miða í gegnum klappið sem hefur oft klikkað?“ spyr Sanna.

Ferlið sem Sanna lýsir má sjá á þessari mynd sem hún deildi einnig með færslu sinni á Facebook:

Sanna segist einnig finnast það „leiðinlegt að sjá talað um mögulegt svindl þegar aðrar ástæður eru ekki nefndar eða skoðaðar í umfjöllun um sölu stakra miða til aldraðra og öryrkja.“

Það liggi beinna við að spyrja frekar notendur, til dæmis: „Hvernig upplifa öryrkjar nýja greiðslukerfið, þar sem það er ekki hægt að greiða með reiðufé? Hvernig gengur að nýta nýja afsláttakerfið þegar það er einungis hægt að virkja slíkt rafrænt (í mörgum skrefum) eða með því að fara upp á Hestháls?“

Strætó bs. virðist áfjáð í að nýta tækifærið til að réttlæta allan þann gífurlega kostnað sem farið hefur í innleiðingi Klapp-kerfisins, bæði appsins og skynjara, með því að bendla öryrkja, aldraða og aðra notendur Strætó við stórfellda svikastarfsemi. Kostnaðurinn við Klappið nemur nú þegar á mörg hundruð milljónir og ef marka má loforð borgarmeirihlutans um breytingar á kerfinu þar sem skynjarar verða lagðir til hliðar og miðaverðir ráðnir inn til að athuga miðakaup notenda handahófskennt, mun sá kostnaður aðeins vaxa.

Færsla Sönnu:

https://www.facebook.com/share/p/oVVYyoBCJRa5kJ29

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí