Blað var brotið í fjölmiðlasögu Íslands í nýjustu útgáfu Viðskiptablaðsins. Ritstjóra blaðsins, Trausta Hafliðasyni, tókst það sem fáum hefur tekist, að finn út hvað ákveðin hópur innan samfélagsins kostar okkur hin á ársgrundvelli. Þá er langþráður draumur margra viðskiptablaðamanna orðinn að raunveruleika. Loksins er hægt að koma öllu því sem maður tekur sér fyrir hendur, og honum sjálfum, fyrir snyrtilega í bókhaldi. Annað hvort undir debet eða kredit. Þeir sem gefa og þeir sem taka.
Ritstjóri Viðskiptablaðsins er ekki einhver rasisti sem lætur stjórnast af tilfinningarökum. Nei, hann notar vísindi og kemst að niðurstöðu. Sú niðurstaða er að múslímar kosta íslenskt samfélag 10 milljarða á ári. Nei, afsakið ekki múslímar, heldur MENAPT-fólkið. Það er vísindalegt heiti yfir það fólk sem kemur frá helstu múslímalöndum heims, öllum þeim fjölmennustu fyrir utan Indónesíu. Einhverjir verða ekki hissa að heyra að þetta heigulslega og gungulega nýyrði yfir múslíma kemur frá Danmörku.
Og hvernig tókst ritstjóra Viðskiptablaðsins að reikna það út að fólk frá þessum MENAPT löndum kostuðu svo mikið á ári? Það er ansi mikið fyrir hóp sem telur einungis um þrjú þúsund manns á Íslandi. Og Trausti Hafliðason ritstjóri er ekki hlutdrægari en það að hann gerir jafnvel ráð fyrir því að einn og einn múslími sé ekki gapandi svarthol sem dregur ríkisfjármuni til sín. Einn og einn er vafalaust löghlýðinn og stundar einhver störf, mætir jafnvel í vinnu.
Trausti útskýrir mál sitt í blaðinu. Rétt er að vekja athygli á því að þessi skrif birtast sem ritstjórnarpistill og enginn höfundur merktur fyrir þeim. Þessi í stað er þykist viðkomandi vera uppskáldaður maður, Óðinn. Þó þetta veki furðu í dag, þá var þetta algengt og þótti sniðugt á síðustu öld, í blómaskeiði prentmiðla. Ritstjóri skrifar þó yfirleitt efnið. Hvað sem þessu líður þá er það útskýrt svo hvernig þessi tala var fundin:
„Samkvæmt íslensku hagstofunni eru tæplega 3 þúsund innflytjendur frá MENAPT-löndunum á Íslandi. Nýjustu tölurnar sem við eigum frá danska fjármálaráðuneytinu um hreint framlag innflytjenda til hins opinbera er vegna ársins 2018. Óðinn hefur, á grundvelli dönsku gagnanna, áætlað kostnaðinn sem hið opinbera á Íslandi ber vegna fólks frá þessum upprunalöndum.“
Já svo virðist sem talan hafi verið fundin með því að reikna hvað hver múslími kostar Dani. Margfalda svo með þrjúþúsund. Sá sem skrifar virðist strax tvístígandi með niðurstöðu sína, enda fráleitt slump sem er í skásta falli merkingarlaust. Sá virðist átta sig á því að múslímar hér og múslímar í Danmörku eru ekki alveg sami hópurinn.
„Beinn kostnaður er um 10 milljarðar króna og reynsla Dana er að hann lækkar ekki eftir því sem innflytjendur frá þessum löndum dvelja lengur í landinu. Það verður þó að hafa nokkra fyrirvara á tölunni, bæði til hækkunar og lækkunar. Danska skatt- og bótakerfið er ekki eins og hið íslenska. Mikill fjöldi fólks hefur komið til Íslands frá þessum löndum vegna þess að þjónusta við sjúka og fatlaða er betri en í þeim löndum sem fólkið á tækifæri til að fá dvalarleyfi í.“
Með öðrum orðum, margir múslímar í Danmörku eru eldri og við verri heilsu en þeir sem búa hér, til dæmis. Stóri glæpur múslíma í Danmörku virðist þá á endanum vera að þeir voga sér að nota sama heilbrigiðskerfi og aðrir Danir.
Þessi tilraun Viðskiptablaðsins verður að teljast smánarleg og misheppnuð, en fyrst og fremst aumkunarleg. Hún er þó að hluta frumleg því sjaldgæft er að haturskrif sem þessi séu sett í svo rekstrarlegan búning. Ef íslenskt samfélag er fyrirtæki, þá er bullandi tap hjá rekstrareiningunni með öllum múslímunum. Samviskusamur framkvæmdastjóri yrði, getur ekki annað, að leggja hana niður, rekstursins til heilla. Ekkert er samt nýtt undir sólinni, því nasistar voru einnig duglegir að vekja athygli á því hve ofboðslega dýrir gyðingar væru fyrir samfélagið. Þeir lögðu deildina niður.
Annars er það ekki svo fráleit hugmynd að kanna kostnað við hina ýmsu hópa í samfélaginu. Einn hópur kostað þjóðina stórfé, ef við notum sömu rök og Viðskiptablaðið. Köllum þá VGS fólkið, vísindalegt orð yfir hægrisinnaða menn á miðjum aldri sem búa yfirleitt í Garðabæ, Seltjarnarnesi eða Vesturbæ. Margir útskrifaðir úr Versló, tóku svo viðskiptafræði eða hagfræði, og svo beint í starf hjá bönkum, fjármálafyrirtækjum. Sumir urðu viðskiptablaðamenn.
VGS fólkið stærir sig af því að það reyni allt svo það komist hjá því að borga eðlilegan skatt.Á Íslandi er það lítið mál og sýna Panamaskjölin vel hve margir fóru þá leið. Svo hópurinn er strax ekki í góðum málum, bókhaldslega, varla Þeir sem gefa. Þessi sami hópur skammast sín svo lítði fyrir að þiggja ýmiskonar styrki frá ríkinu, þó þeir segjast frjálshyggjumenn. Skiljanlega þó, því annars er gjaldþrot yfirleitt handan við hornið. Síðast þegar þessi hópur fékk að vaða uppi, fengu Íslendingar í faðmið gjaldþrot þriggja banka. Það var dýrt fyrir samfélagið, raunar svo dýrt, að upplogni kostnaðurinn við múslímana þrjú þúsund eru smáaur í samanburði.
Hér má finna grein Viðskiptablaðsins í heild sinni.
Myndin er af Trausta Hafliðasyni ritstjóra Viðskiptablaðsins.