Umhverfisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, ásamt samráðherrum sínum, Bjarna Benediktssyni, Lilju Alfreðsdóttur og Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, fór með fallega glærusýningu í dag í kynningu á loftslagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar.
Lítið var farið í smáatriði en tölum fleygt fram um 150 loftslagsaðgerðir miðað við 50 aðgerðir eldri áætlunar. Allt í allt á þetta að draga úr kolefnislosun um 35-45% fyrir árið 2030.
Tilviljanakennt kom út gríðarstór og ítarleg rannsókn Heimildarinnar í dag þar sem farið var ofan í saumana á fúski og braski fyrirtækisins Running Tide. Fyrirtækið hefur starfað hér á Íslandi síðustu tvö árin í samstarfi við íslensk stjórnvöld við að binda kolefni með aðferð sinni. Guðlaugur Þór og fleiri ráðherrar fögnuðu fyrirtækinu ákaft og hömpuðu framkvæmdinni sem byltingakenndri. „Stærsta varanlega kolefnisföngunarverkefni í heimi, Running Tide“, sagði Guðlaugur um verkefnið.
Það sem Heimildin afhjúpaði með rannsókn sinni er að verkefnið var hvorki byggt á vísindalegum grunni, en vísindamenn hafa sagt verkefnið gagnslaust með öllu, né fór framkvæmd þess fram með þeim hætti sem lýst var. Running Tide endaði á því að flytja inn kanadískt trékurl í tonnavís, henda því sjóinn og lofa einhvers konar kolefnisbindingu með því sem engin sönnungargögn liggja fyrir um.
Aftur að loftslagsaðgerðakynningunni í dag. Í ljósi umfjöllunar Heimildarinnar, sem hlýtur að teljast afar óþægileg fyrir umhverfisráðherra, þá er ljóst að rannsaka þarf kyrfilega kynningu hans og áform um „150 loftslagsaðgerðir“.
Við fyrstu skoðun má sjá margvíslegar vísanir í fyrirtækið Carbfix í áætluninni, en einnig er ítrekað vísað í aðgerðir sem byggja eigi á „tækni sem er enn í þróun“. Í málaflokknum „Orkuvinnsla“ er talað um aðgerðir sem eiga að fanga allt að 95% af kolefnislosun jarðvarmavirkjana, en segir strax: „Tæknin til að nýta CO2 í eldsneyti eða binda í berg er í þróun og taka aðgerðir stjórnvalda mið af því.“
Einnig var nefnt í kynningu þessarar aðgerðaáætlunar að hún skeri sig frá eldri áætlun vegna þess að við vinnu hennar „var lögð höfuðáhersla á samtal við mismunandi geira atvinnulífsins“.
Ekkert af þessu þarf í sjálfu sér að vera slæmt, en það sem ævintýrið með Running Tide sýnir er að það er hætta á því að yfirvöld sem eru höll undir markaðslausnir, hlaupi af stað æst og spennt og moki fjármagni í hvers kyns snákaolíu-lausnir án þess að gerðar séu viðunandi rannsóknir á notagildi þeirra.
Vafalaust er ýmislegt gott og þarft í þessum pakka og ekki vanþörf á vegna aðkallandi áhrifa loftslagsbreytinga og afleiðinga þeirra, en velta má fyrir sér hvort Guðlaugi Þór og hans flokki sé treystandi fyrir því að meta lausnirnar hlutlægt.