Furðuefni þykir Árna Baldurssyni, atvinnustangveiðimanni, að fiskeldi hafi ekki verið tekið fyrir af neinum þingflokki og gert að áherslumáli. Enginn þingflokkur standi með þjóðinni gegn ásókn fyrirtækja á íslenska náttúru.
Árni hefur verið víðförull stangveiðimaður á heimsvísu og rekur fyrirtæki í stangveiði. Hann er nýkominn frá Noregi og var til viðtals í þættinum Dagmál á mbl.is. Hann hefur miklar áhyggjur af bæði landeldi og fiskeldi í sjókvíum vegna áhrifa þeirra á náttúruna og á villta laxastofna.
Hann segir áhrifin í Noregi nú þegar gríðarleg, en loka hefur þurft ýmsum laxveiðiám nú þegar vegna ofveiði en einnig vegna slysasleppinga úr fiskeldi. Sömu sögu sé að segja frá Skotlandi þar sem mikið fiskeldi sé starfrækt en þar sé villti laxinn nánast horfinn. Í Sjíle hafi fiskeldi þegar valdið miklum skaða og sömuleiðis í Kanada, en þar í landi hefur verið ákveðið að draga úr fiskeldi með fimm ára aðlögunartíma, vegna gífurlega neikvæðra áhrifa á villta stofna. „Við vitum að þetta sama mun ske hérna, af hverju ætti það ekki að gerast hérna?“
Árni segir mikla pólitíska inneign vera fyrir því að standa uppi í hárinu á fiskeldisfyrirtækjum og honum finnist óskiljanlegt að enginn þingflokkur hafi tekið það mál upp af fullri alvöru. Mikill fjöldi atkvæða væri í því að stemma stigu við þessari þróun. „Ef einhver þingflokkur myndi stíga fram og segja við stöndum með fólkinu, við ætlum að vernda íslenska náttúru, geturðu ímyndað þér hvað fólkið myndi hópast og fagna með þessum þingflokki? Þetta þurfum við að sjá.“
Samfélagið standi á tímamótum og ríkisstjórnin hafi um tvennt að velja. „Við getum valið íslenska náttúru og okkar náttúruauðlindir, fólkið í landinu… eða gleymum þessu öllu og seljum það fyrir peninga… fyllum norska vasa af gulli frá Íslandi og sættum okkur bara við að þetta er búið.“
Árni segir einhvern þurfa að taka ábyrgð á því að taka ákvörðun, en það verði „geymt, en ekki gleymt“.
Mikill fjöldi landeldisfyrirtækja eru nú þegar fyrirhuguð til viðbótar við mikla aukningu í sjókvíaeldi sem þegar er starfrækt hér á landi. Landeldisfyrirtækin hyggja á starfsemi sem muni nota ferskvatn sem nemur allri notkun á Íslandi í dag.
Slysasleppingar úr sjókvíum hafa valdið miklum skaða nú þegar, en í sumar bárust fréttir af þúsundum fiska sem höfðu greinilega sloppið úr landeldiskerum líka. Í fiskeldisstöð Samherja á landi í Öxarfirði var ekki hægt að gera grein fyrir 5200 fiskum nú í sumar, sem talið er að hafi sloppið í seltjarnir og út í sjó. Vandamálið einskorðast því ekki við sjókvíar. Þá er ónefnt dýraníðið sem fylgir hinum mikla laxadauða og sjúkdómum sem hrjá laxa í aðþrengdum kerum. 2 milljónir laxa í fiskeldi drápust þannig fyrstu fimm mánuði ársins og var það mikil aukning frá síðasta ári.
Hætt var við frumvarp um reglugerðir með lagareldi (sjókvíaeldi) á Alþingi í sumar við lok þingsins þar sem ekki var fyrir því stuðningur innan ríkisstjórnarinnar. Frumvarpið hafði afar umdeilt ákvæði um ótímabundin leyfi til fiskeldisfyrirtækja sem hlaut mikla gagnrýni, en málið var þó endanlega fellt af Sjálfstæðisflokki og Framsókn vegna þess að heimildir til sekta vegna slysasleppinga og annarra mistaka þóttu of strangar. Ekkert liggur fyrir um framhald þess máls þar sem samstarfsflokkar Vinstri grænna virðast engan áhuga hafa á því að binda fiskeldisfyrirtækjum nokkrar skorður.