„Það er verið að gera nákvæmlega sama á Vesturbakkanum og var gert á Gaza. Það á að hreinsa Vestur-bakkann líka. Það er það sem liggur fyrir. Til þess nota þeir sömu tól og áður: vopn frá Bandríkjunum, Evrópu og Kanada. Það hreyfir enginn mótbárum og við erum neydd til að horfa á þetta.“
Svo hljóða nýjustu fregnir frá Palestínu, en Margrét Kristín Blöndar, tónlistarkona og aktívisti, best þekkt sem Magga Stína greinir frá þessu í viðtali við Rauða borðið sem sýnt verður í kvöld. Hún segir helstu tíðindin í dag vera fyrrnefnd stefnubreyting Ísraelsríkis gagnvart Vesturbakkanum. Það svæði hefur síðustu mánuði fengið að „vera í friði“, ef svo má kalla. Þar hafa einungis um 500 Palestínumenn verið myrtir á árinu samanborið við fjöldamorðin í Gaza þar sem á fimmtíu þúsund liggja í valnum, það sem af er ári.
„Markmið er algjörlega skýrt. Utanríkisráðherra Ísrael segir í raun að þetta séu þjóðernishreinsanir. Það verður ekki á þá logið að þeir hafa þó verið mjög hreinskiptnir með yfirlýsingar. Þessi stjórn fer ekki í neinar grafgötur um fyrirætlanir sínar. Þeir eyðileggja allt, eyðileggja orkuver, eyðileggja vatnsleiðslur. Jafna heimili við jörðu,“ segir Magga Stína.
Nánar verður fjallað um þessa stöðu við Rauða borðið í kvöld.