„Það er alveg ljóst að það er stór hópur af góðu fólki sem hefur unnið þessa áætlun ríkisins, en það sem olli mér mestum vonbrigðum að það er alltof mikið sem er á hugmyndastigi. Af hverju er þetta ekki meira útfært? Af hverju eru menn ekki búnir að setja einhverjar tölur á það hvað hlutirnir kosta? Eða hversu miklu þetta skilar? Það gerist andskotann ekki neitt. “
Þetta segir Árni Bragason um aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Hann og Stefán Jón Hafstein koma að Rauða borðinu í kvöld en báðir eru meðlimir í Aldin samtökunum sem nýverið skiluðu inn ítarlegri umsögn í samráðsgátt um loftslagsstefnu. Í samtökunum eru „fjölmargir einstaklingar sem starfað hafa í stjórnsýslu, atvinnulífinu, félagasamtökum og háskólasamfélaginu meðal annars að umhverfis og loftslagsmálum“, líkt og það er orðað í fyrrnefndri umsögn.
Óhætt er að segja að sú umsögn sé fremur gagnrýnin á aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar. Fyrir það fyrsta það þá hefði hún átt að koma út fyrir mörgum árum. „Á næsta ári verða 10 ár frá Parísarsamkomulaginu um loftslagsbreytingar, þar sem að okkar þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, flutti ræðu og staðfesti vilja Íslands til að vera með í þessu hnattræna átaki. Þá hefði þetta átt að koma, strax, fyrir 10 árum,“ segir Stefán Jón.
Þeir Árni og Stefán Jón munu fara ítarlega yfir þetta við Rauða boði í kvöld og reyna að varða veg úr vistkrísunni með alvöru aðgerðaráætlun í raunhæfri bjartsýni.